Listasafn Reykjavíkur: OP - D45 Baldvin Einarsson
þriðjudagur, 7. desember 2021
Listasafn Reykjavíkur: OP - D45 Baldvin Einarsson
Sýningaropnun í Hafnarhúsi
Fimmtudag, 9. desember kl. 17.00
D45 Baldvin Einarsson: Op
Fimmtudaginn 9. desember kl. 17.00 verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, 45. sýningin í D-salar sýningarröð safnsins. Að þessu sinni er það listamaðurinn Baldvin Einarsson með sýninguna Op.
Á sýningunni skoðar Baldvin samspil þess innra og þess ytra. Áhorfendum er boðið að horfa inn um það sem virðast vera íburðarmiklar bréfalúgur – og má því segja að hann snúi sýningarsalnum á rönguna þar sem bréfalúgur snúa vanalega út. Bréfalúgur eru gáttir þar sem upplýsingar fara úr almannarými inn í einkarými. Hér eru þær rammar utan um tómið milli hins ytra og hins óséða og óræða innra.
Áhorfendur stíga inn í rými valmöguleika þar sem þeim gefst kostur á að máta eina eða fleiri fullyrðingar við sjálfa sig, vega þær og meta. Þeir fá tækifæri til þess að finna sig í sýningunni, að enduruppgötva gleymd sjálf eða jafnvel finna sér nýtt hlutskipti í lífinu. Eða hvað? Er allt saman fyrirfram ákveðið og valið blekkingin ein?
Baldvin Einarsson er fæddur á Íslandi árið 1985 en býr og starfar í Antwerpen í Belgíu. Hann útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og lauk meistaraprófi í sömu grein frá Konunglegu Akademíunni í Antwerpen árið 2013. Hann stofnaði og rak, ásamt öðrum, sýningarýmin Kunstschlager í Reykjavík og ABC Klubhuis í Belgíu. Baldvin hefur sýnt verk sín víða á Íslandi, meðal annars í Safni Péturs Arasonar, Harbinger, Kling & Bang, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og víðsvegar um Evrópu en einna helst í Belgíu.
Baldvin er 45. listamaðurinn til að sýna í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal sem hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.
Sýningarstjóri er Birkir Karlsson, verkefnastjóri hjá Listasafni Reykjavíkur.