Listasafn Einars Jónssonar: Hnoð/Knead - Samsýning
föstudagur, 24. júní 2022
Listasafn Einars Jónssonar: Hnoð/Knead - Samsýning
Hnoðast með skúlptúr og mat
Laugardaginn 25. júní kl. 15 opnar samsýningin Hnoð /Knead í Listasafni Einars Jónssonar
Sýningin er hluti af fimm landa Evrópuverkefni sem kallast UpCreate (http://up-create.eu/) þar sem áhersla er lögð á mat og ólíkar listgreinar. Í tilviki Listasafns Einars Jónssonar sá Sindri Leifsson myndlistarmaður um skúlptúrsmiðju í garðskála og höggmyndagarði með níu þátttakendum og er sýningin afrakstur af þeirri vinnu.
Listasafn Einars Jónssonar (LEJ) er fyrsta byggingin sem reist var við Skólavörðuholt 1923. Áhugaverðar útisýningar spruttu fram á þessu svæði á árunum 1967–1972 sem hvorki Einar Jónsson né safn hans tóku þátt í. Brauð sem hráefni kom þar við sögu. Einar nefnir í endurminningum sínum að hann hafi fengið hagldabrauð (eins konar kringla) í nesti sem krakki en tímdi ekki að borða það af því honum fannst það svo fallegt í laginu. Í þessu samhengi og í samvinnu við Brauð & Co. var ungu listafólki boðið að taka þátt í verkefninu.
Fimm manna dómnefnd mun velja einn vinningshafa og mun hann ferðast með safninu til Ítalíu í haust og taka þátt í smiðju á hinum alþjóðlega Feneyjartvíæringi! Í dómnefnd eru Sindri Leifsson myndlistarmaður, Sigurður Guðmundsson, myndlistarmaður, Ósk Gunnlaugsdóttir f.h. Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík, Anna Marie Fisker, alþjóðlegur fulltrúi verkefnisins sem jafnframt stýrir rannsóknarsetri í matvælafræðum, hönnun og upplifun við Álaborgarháskóla í Danmörku og AlmaDís Kristinsdóttir safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar.
Listasafn Einars Jónssonar er opið 12-17 alla daga nema mánudaga. Sýningin stendur til 26. júní. Þátttakendur í verkefninu eru:
Benedikt Ingi
Gabriel Backman
Guðný Sara Birgisdóttir
Hlökk Þrastardóttir
Maria Sideleva
Oliver Wellmann
Saga Líf Sigþórsdóttir
Sigurlinn María Sigurðardóttir
Victoria Björk Ferrell