top of page

Listasafn ASÍ velur Sigurð Ámundason myndlistarmann til samstarfs

508A4884.JPG

fimmtudagur, 10. október 2024

Listasafn ASÍ velur Sigurð Ámundason myndlistarmann til samstarfs

Listasafn ASÍ kallaði nýverið eftir umsóknum frá myndlistarmönnum vegna innkaupa og til samstarfs um sýningarhald á vegum safnsins. Þetta er í fimmta sinn síðan 2017 sem safnið auglýsir eftir umsóknum frá listafólki í þessum tilgangi.

Listráð Listasafns ASÍ, sem í eiga sæti sýningarstjórarnir Daníel Björnsson, Dorothée Kirch og Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri, hafði úr 92 umsóknum að velja að þessu sinni. Ákveðið var að kaupa verk af Sigurði Ámundasyni og bjóða honum jafnframt til samstarfs um sýningarhald á tveimur stöðum á landinu á næsta ári 2025.

Sigurður er fæddur 1986 og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2012.

Meðal nýlegra verkefna og sýninga má nefna Billboard (450 led auglýsingaskjáir á höfuðborgarsvæði – Rétthermi (2023), Hið ósagða, leikrit (handristshöfundur, leikstjóri, leikari) (2022), What´s Up Ave Maria? Í Hafnarborg (2022), After The Sun: Forecasts From the North í Buffalo AKG Art Museum (2024), Hvað er hvað var hvað verður - Ars Longa, Djúpavogi (2023) og Raw Power – Listasafn Reykjavíkur Hafnarhúsi (2021).

Í umsögn listráðsins segir m.a. um verk Sigurðar Ámundasonar:

,,Sigurður er óhræddur við að prófa sig áfram með mismunandi listform. Hann hefur unnið jafnt og þétt að því að þróa sitt eigið myndmál að mestu óháð ríkjandi straumum og stefnum. Efnisnotkunin er nokkuð óvenjuleg og hann fer óhræddur út í almenningsrýmið og fangar þar athygli með einstöku myndmáli.“

Sigurður Ámundason er fimmti listamaðurinn sem Listasafn ASÍ velur til þátttöku í sýningaröð sem hleypt var af stokkunum í byrjun árs 2017. INNLJÓS, sýningar með verkum Sigurðar Guðjónssonar í Hafnarfirði og á Blönduósi, voru þær fyrstu í sýningaröðinni 2017 og 2018. Haldnar voru tvær samhliða sýningar – UNIVERSAL SUGAR – með verkum Hildigunnar Birgisdóttur í Vestmannaeyjum og Garðabæ árið 2019. Vorið 2021 var sýning Bjarka Bragasonar -SAMTÍMIS – haldin á Höfn í Hornafirði. Sýningar Unu Bjargar Magnúsdóttur – SVIKULL SILFURLJÓMI – voru haldnar í Súðavík og Mosfellsbæ á síðasta ári.

Á meðan safnið vinnur að því að koma upp nýjum sýningarsal eru sýningar safnsins haldnar í samstarfi við stofnanir og samtök víðsvegar um landið. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem hlut eiga að máli hverju sinni og eru haldnar til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum. Samhliða sýningum á nýjustu verkunum í eigu safnsins eru haldin námskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er m.a. með elstu verkin í safneigninni.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page