Listasafn ASÍ og Alþýðusambandsins: Það er gaman að lifa
þriðjudagur, 24. maí 2022
Listasafn ASÍ og Alþýðusambandsins: Það er gaman að lifa
Miðvikudaginn 25. maí n.k. kl. 16:00 opnar sýningin
ÞAÐ ER GAMAN AÐ LIFA
í anddyri Listasafns ASÍ og Alþýðusambandsins, Guðrúnartúni 1, 105 R.
Sýningin stendur til 15. júlí og eru opin virka daga kl. 9-16.
17. júní 2021 voru sextíu ár liðin frá stofnun Listasafns ASÍ. Af því tilefni gefur safnið út níu handunnin veggspjöld eftir níu unga myndlistarmenn/hönnuði sem fjalla um helstu brennandi baráttumál samtímans. Efni veggspjaldanna er ætlað að tala inn í samtímann með myndmáli sem allir skilja. Með verkefninu hyggst safnið fanga tíðaranda dagsins í dag. Það hafa orðið stórkostlegar breytingar í samfélaginu á þeim 60 árum sem safnið hefur verið starfrækt. Með því að nota aðferðir sem voru við lýði fyrir sextíu árum kallast verkefnið á við fortíðina og segir jafnframt sögu samtímans og þess sem við honum blasir.
Verkefnið dregur nafn að frægðu málverki Kjarvals frá 1946 sem sýnir ungmenni í fjöru í rigningarsudda. Í lýsingu á verkinu ÞAÐ ER GAMAN AÐ LIFA stendur skrifað: ,,Náttúran er dálítið drungaleg og veðurhorfur tvísýnar. Drengirnir í fjörunni vita vel hvað þeir vilja og það er ekki gaman að lifa fyrir það eitt að allt leikur í lyndi, heldur miklu fremur vegna þess að þeir þora að horfast í augu við hina tvísýnu veröld og eru ákveðnir í að bjarga henni.’’
Tilgangur verkefnisins nú, er m.a. að hvetja unga hönnuði og myndlistarfólk til að ,,horfast í augu við tvísýna veröld‘‘ túlka hana og tjá sig um það sem er að gerast í mannlegu samfélagi.
Eftirtaldir eiga veggspjöld á sýningunni:
Bragi Hilmarsson
Megan Auður
Kristín Einarsdóttir Cavan
Ingi Rúnar Kjartansson
Katrín G. Sigrúnardóttir
Halldór Jóhann Gunnarsson
Ísak Einarsson
Hallbjörg Helga Guðnadóttir
Alexandra Dögg Steinþórsdóttir
Leiðbeinendur/ráðgjafar verkefnisins eru:
Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) og Sigurður Atli Sigurðsson (Prent&Vinir)
Leiðbeinandi/ráðgjafi á grafíkverstæði:
Joe Keys
Aðtoðarmaður á grafíkverkstæði:
Odda Júlía Snorradóttir
Ljósmyndari:
Vigfús Birgisson
Grafísk hönnun:
Arnar&Arnar
Veggspjöldin eru gerð í 20 númeruðum eintökum og eru til sölu hjá safninu og listamönnunum sjálfum.
IIIIIIIIIIIIIIIIIIIIII
Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ
s: 868 1845
elisabet@listasafnasi.is
www.listasafnasi.is
..........
Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961 og fagnaði sextíu ára afmæli í júní á síðasta ári. Iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára lagði grundvöllinn að listasafninu með því að gefa Alþýðusambandi Íslands málverkasafn sitt – um 147 myndir – eftir marga af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þessi fræðslusjónarmið frumkvöðulsins að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og stofnunum víða um land. Verkefni safnsins hafa verið fjölbreytt í gegnum tíðina og safneignin hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess fyrir tæpum sextíu árum og geymir nú um 4200 verk. www.listasafnasi.is