top of page

Listasafn Íslands: Tvær sýningaropnanir 28. maí kl 15:00

508A4884.JPG

föstudagur, 20. maí 2022

Listasafn Íslands: Tvær sýningaropnanir 28. maí kl 15:00

Tvær sýningaropnanir í Listasafni Íslands, Fríkirkjuvegi, laugardaginn 28. maí klukkan 15:00.

„Ekkert er víst nema að allt breytist / The Only Constant is Change“ - Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

„Liðamót / Ode to Join“ - Margrét H. Blöndal

Upplýsingar um sýningarnar:
Sýningin ,,Liðamót / Ode to Join" samanstendur annars vegar af teikningum gerðum með olíu og litadufti og hins vegar þrívíðum verkum sem Margrét H. Blöndal mun vinna beint inn í rými sýningarsalarins. Heiti sýningarinnar Liðamót vísar í þá staðreynd að þar sem þrír eða fleiri liðir koma saman verður til hreyfing. Í verkum Margrétar mótast hreyfingin út frá skilrúmum sem sett verða upp í rýminu, staðsetningu verkanna og innra samhengi þeirra. Enski hluti titilsins, Ode to Join, er hins vegar óður til tengingar þar sem hver skúlptúr eða teikning verður eins og ein eining í pólífónísku tónverki. Verk Margrétar eru handan orða og búa yfir fegurð og yfirskilvitlegu aðdráttarafli enda hefur innsetningum hennar verið líkt við tónaljóð.
Margrét H. Blöndal er fædd árið 1970 í Reykjavík þar sem hún býr og starfar. Margrét útskrifaðist úr fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1993. Árið 1997 lauk hún MFA-gráðu frá Mason Gross School of Arts, Rutgers University í New Jersey í Bandaríkjunum. Margrét á langan feril að baki og hefur sýnt víða bæði heima og erlendis síðan 1994.


Sýninguna ,,Ekkert er víst nema að allt breytist" má skoða sem hugleiðingu og jafnvel óð listakonunnar til þeirrar kerfishugsunar sem einkennt hefur verk hennar til þessa en þó í víðara samhengi. Samhliða þróun á eigin hugmyndakerfi beinir Ingunn nú einnig sjónum sínum að þeim tæknilegu og hugmyndafræðilegu kerfum sem stýra, leynt og ljóst, mannfólkinu og heiminum í heild. Hvort sem um ræðir algóritma og kóða, eða litið er til pólitískra kerfa, fjármálakerfa, eða persónulegt vafur um internetið er grandskoðað, þá veltir verkið Ekkert er víst nema að allt breytist upp spurningum um hver sé við stjórnvölinn og hver áhrif og forráð einstaklingsins raunverulega séu.
Á sýningunni gætir kunnuglegra stefja frá fyrri verkum sem þó hafa aldrei verið sameinuð áður. Þessi fjölþætta innsetning Ingunnar Fjólu stýrist af mismunandi þáttum, annars vegar innbyggðu kerfi verksins og hins vegar aðkomu áhorfandans og því óljóst hver aflvaki verksins er hverju sinni.
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f. 1976) útskrifaðist með MA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og BA-gráðu í myndlist frá sömu stofnun árið 2007. Hún er einnig með BA-gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum frá 2002. Í listsköpun sinni fæst Ingunn við ýmsa miðla eins og málverk, vefnað og innsetningar. Verk hennar fela oft í sér gagnvirkni eða beina þátttöku og teygir hún þannig verkin inn í opið kerfi þar sem þau lifna við fyrir tilstilli áhorfenda og rýmisins.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn

SAMBAND
ÍSLENSKRA
MYNDLISTARMANNA

Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík, Ísland

Skrifstofan er opin virka daga frá kl 12 -16

Sími/ Tel.: +354 551 1346
Email: sim@sim.is

Kt. 551283-0709

Samfélagsmiðlar

  • Facebook
  • Instagram
logo_white_edited.png

© Samband íslenskra myndlistarmanna, 2024

bottom of page