top of page

Listamannaspjall: Sirra Sigrún Sigurðardóttir - Almanak í Portfolio Gallerí

508A4884.JPG

fimmtudagur, 28. september 2023

Listamannaspjall: Sirra Sigrún Sigurðardóttir - Almanak í Portfolio Gallerí

Sirra Sigrún tekur á móti gestum á laugardaginn 30. september næstkomandi kl 14:00 og segir frá tilurð verka sinna á sýningunni Almanak, í Portfolio gallerí. Næstakomandi helgi er jafnframt síðasta sýningarhelgi sýningarinnar, við mælum eindregið með að koma við og upplifa verkin og að fá innsýn inn í ferli við gerð verkanna og þeirrar hugmyndafræði sem Sirra Sigrún vinnur út frá.

Opnunartímar gallerísins eru fimmtudagar til sunnudagar milli 14:00 og 18:00

Um listamanninn og sýninguna Almanak

Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan inn á vangaveltur um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau framkalla oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað ​​svo úr verður ný skynjun, ný sýn.

,,Þetta er ekki hvaða ljós sem er sem klýfur myrkrið, heldur ljós af sólu. Ólíkt því sem daglegur veruleiki flestra býður upp á, þar sem ljós af allskonar gerðum og uppruna keppir um athygli og getu augans, er hér aðeins ein tegund sem tekur yfir, allavega aðeins ein tegund sem er nógu sterk til að skilja eftir sig merki á filmunni. Sólarljósið fellur lögmálsbundið, þó íslenskt veður gefi oft góðar ástæður til að halda að svo sé ekki. Myrkrið víkur, lögmálsbundið fyrir ljósi, og með því að það sker sér för í yfirborð filmunnar, verður ekki aðeins til mynd af náttúrulögmálinu, heldur líka mynd af staðnum þar sem myndavélin er. Aðeins nákvæmlega hér lítur gangur sólar svona út. Hér er því heimurinn mældur með ljósi í myrkri. Hér verður til staðsetning, skilgreind út úr myrkrinu (og orðið nærri því óþægilega stutt í biblíulegt tungumál um myrkur og ljós), er staðsetningin þó ekki aðeins fólgin í gangi sólar heldur verður til mynd, af dökkum formum, trjám og himni.”

* Brot úr texta sem Jóhannes Dagsson listfræðingur skrifaði um sýninguna og er að finna í heild sinni á vef portfolio galleri, í sýningarskrá fyrir Almanak :
https://www.portfolio.is/_files/ugd/403765_048c8f2e08314ccdb57315a655779d32.pdf

Sirra Sigrún Sigurðardóttir lauk BA námi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og MA í Art Practice frá School of Visual Arts í New York árið 2013. Hún er dósent og fagstjóri við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Sirra hefur meðal annars haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Hafnarborg og Kling & Bang og tekið þátt í samsýningum og verkefnum víða um heim, þar á meðal í Chinese European Art Center í Xiamen í Kína, Amos Andersons Konstmuseum í Helsinki í Finnlandi og í Tate Modern og Frieze Projects í London á Englandi.

Sirra er einn stofnenda Kling & Bang í Reykjavík. Sirra var tilnefnd til Myndlistarverðlaunanna árið 2020 og hefur hlotið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Dungal, Leifs Eiríkssonar, Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og Guðmunduverðlaunin árið 2015.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page