Leirlist og textíll: Þorbjörg Þórðardóttir og Elísabet Haraldsdóttir
fimmtudagur, 15. ágúst 2024
Leirlist og textíll: Þorbjörg Þórðardóttir og Elísabet Haraldsdóttir
Sýningin Leirlist og textíll eftir Elísabetu Haraldsdóttur og Þorbjörgu Þórðardóttur, opnar á Dönskum dögum laugardaginn 17. ágúst kl. 11:00.
Elísabet Haraldsdóttir
Elísabet stundaði nám við Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1967-1971. Framhaldsnám við Listaháskólann í Vínarborg, Hochschule für angewandte Kunst Wien 1971-1976, þar sem áherslan var á leirlist og skúlptúr. Hún var gestanemandi við Konstfackskólann í Stokkhólmi 1974 og sótti námskeið við Haystack Mountain
School of Crafts í Bandaríkjunum 1993, og fékk styrk til starfa á norrænni vinnustofu í Bergen og starfaði í tvígang í postulínsverksmiðju í Póllandi á International Symposium „ The Porcelain Another Way“. Elísabet lauk kennsluréttindanámi frá Listaháskóla Íslands. Listaverk hennar eru í eigu opinberra stofnana og listasafna.
Elísabet býr á Hvanneyri og hefur starfað m.a. við kennslu og skólastjórnun við grunnskólann á Hvanneyri og stundakennslu við Myndlista-og handíðaskóla Íslands. Einnig starfaði hún sem menningarfulltrúi Vesturlands til ársins 2019.
Þorbjörg Þórðardóttir
Þorbjörg er fædd í Reykjavík 1949. Hún stundaði nám við Myndlista-og handíðaskólann og framhaldsnám við Konstfackskólann í Stokkhólmi og hefur unnið að list sinni allt frá 1975 ásamt kennslu við M.H.Í., K.H.Í. og Fossvogsskóla. Þorbjörg hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér heima í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur þrisvar hlotið starfslaun listamanna og unnið til verðlauna fyrir list sína. Listaverk eftir Þorbjörgu eru í eigu opinberra stofnana og listasafna bæði hérlendis og erlendis þ. á m. Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur.
Sýningin stendur til 29. september.