Leiðsögn um sýninguna Samspil
fimmtudagur, 19. janúar 2023
Leiðsögn um sýninguna Samspil
Vinkonurnar og myndlistarkonurnar Marilyn Herdís Mellk og Þórdís Elín Jóelsdóttir opnuðu í desember sýninguna Samspil, á Borgarbókasafninu Spönginni. Þær verða með leiðsögn um sýninguna, laugardaginn 21. janúar kl. 13-15, og sýna auk þess bókverk sem þær unnu saman.
Gestum gefst kostur á að spreyta sig við grafíkina, bera prentlit á dúkristur, sem síðan eru þrykktar í agnarlítilli pressu, hvert þrykk er síðan áritað og númerað af þeim stöllum og gestum til eignar.
Þórdís Elín Jóelsdóttir og Marilyn Herdís Mellk eiga margt sameiginlegt, þær voru samtímis í grafíknámi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á sínum tíma og hafa rekið saman vinnustofu og gallerí á Korpúlfsstöðum.
Íslensk náttúra er þeim báðum hugleikin og spilar stóran þátt í myndlist þeirra beggja, þó ólíkar séu. Í verkunum á sýningunni kanna þær samspil manns og náttúru og nota til þess mismunandi tækni í grafík.
Þórdís Elín Jóelsdóttir lauk námi frá grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1988. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis.
Marilyn Herdís Mellk stundaði nám við California College of Arts and Crafts og síðar við grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands, þaðan sem hún lauk námi árið 1987. Hún hefur einnig haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga.
Sýningin stendur yfir til 25. janúar og er opin mánudaga - fimmtudaga 10-18, föstudaga 11-18 og laugardaga 11-16.
Viðburður á heimasíðu
Viðburður á Facebook
Nánari upplýsingar veita:
Þórdís Elín Jóelsdóttir
thorisej@islandia.is | s. 698 0890
Marilyn Herdís Mellk
marilyn.herdis@gmail.com | s. 895 0799
Sigríður Stephensen hjá Borgarbókasafninu
sigridur.steinunn.stephensen@reykjavik.is | s. 411 6230