Larissa Sansour í Listasafni Reykjanesbæjar

fimmtudagur, 15. maí 2025
Larissa Sansour í Listasafni Reykjanesbæjar
Fortíðin var aldrei, hún bara er, hún aðeins er, einkasýning Larissu Sansour sem jafnframt er fyrsta sýning hennar á Íslandi, opnar í Listasafni Reykjanesbæjar fimmtudaginn 22. maí kl. 18-20. Öll eru boðin velkomin á opnun.
Larissa Sansour (f. Austur-Betlehem 1973) er palestínsk-danskur myndlistarmaður sem hefur hlotið lof á alþjóðavísu fyrir áhrifamiklar kvikmyndainnsetningar.
Á 25 ára ferli sem spannar notkun ólíkra miðla allt frá málverki til ljósmynda og síðar kvikmynda, hefur Larissa sýnt í þekktum listasöfnum á borð við MOMA í New York og Tate Modern í London. Árið 2016 hlaut hún verðlaun alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Guanajuato (GIFF) fyrir bestu tilraunastuttmyndina, In The Future They Ate From The Finest Porcelain (2016). Þremur árum síðar, árið 2019, var hún fulltrúi Danmerkur á 58. Feneyjatvíæringnum í myndlist.
Larissa vinnur um þessar mundir að tveimur nýjum kvikmyndaverkum ásamt samverkamanni sínum Søren Lind; stuttmynd sem er listbeiðni fyrir Wereldmuseum í Amsterdam annars vegar, og fyrstu kvikmynd hennar í fullri lengd, In Memory of Times to Come.
Larissa hefur unnið náið að kvikmyndaverkum sínum með rithöfundinum, leikstjóranum og handritshöfundinum Søren Lind í rúmlega tvo áratugi en hann hefur einnig meðal annars getið sér gott orð fyrir ritun bóka, þar á meðal heimspekirita fyrir börn sem þýdd hafa verið á fjölmörg tungumál.
Sýningastjórinn Jonatan Habib, er á Íslandi núna til að stjórna uppsetningu sýningarinnar.
Opnun er þann 22. maí 2025, klukkan 18:00. Sýningin stendur til og með 17. ágúst 2025.