Landslag og ...: Daði Guðbjörnsson og Soffía Sæmundsdóttir
fimmtudagur, 1. febrúar 2024
Landslag og ...: Daði Guðbjörnsson og Soffía Sæmundsdóttir
Gallerí Fold hefur reglubundið sýningarhald í Vínarborg í samvinnu við Art.Passage.Spittelberg. Sýningarsalurinn er í miðju Spittelberg hverfinu sem líkt hefur verið við Montemartre í París þar sem finna má fullt af veitingastöðum og kaffihúsum auk stórra listasafna. Rík hefð er fyrir sýningarhaldi á þessum stað, sem rekja má allt aftur til 1903.
Fyrir fyrstu sýninguna í Art.Passage.Spittelberg urðu þau Daði Guðbjörnsson og Soffía Sæmundsdóttir fyrir valinu. Bæði eiga þau langa sögu hjá Gallerí Fold og hafa markað spor sín í íslenska listasögu.
Sýningin opnar föstudaginn 2. febrúar kl. 18 og stendur út mánuðinn.
Titill sýningarinnar er „Landslag og ...“
Einnig má skoða sýninguna hér: https://www.artsy.net/show/galleri-fold-1-inspiration-from-icelandic-nature
Sýningarstjóri er Iðunn Vignisdóttir.
Íslensk náttúra og landslag hafa verið helstu viðfangsefni íslenskra listamanna frá því íslensk listasaga hófst um aldamótin 1900, en um það leyti sneru fyrstu íslensku listamennirnir aftur til Íslands að loknu myndlistarnámi í Kaupmannahöfn. Ólíkir stílar hafa komið og farið í íslenskri listasögu, en alltaf er landslagið nálægt, hvort sem það er í bakgrunni, forgrunni eða sem hugmynd. Daði segir: „Þegar ég var ungur voru landslagsmyndir ekki beinlínis í tísku og ég hugsaði með mér; ég get málað landslag þegar ég er orðin gamall þá er öllum sama.“
Daði og Soffía fást við landslagið í verkum sínum á ólíkan hátt. Einkennandi fyrir landslagsverk Daða eru fjörlegar og litríkar krúsidúllur, meðan ferðalangarnir sem einkenna verk Soffíu ferðast um í landslaginu. Áður voru þeir oftast í hóp, en undanfarið hafa þeir orðið óræðari, stefnulausari og æ meira einmanna. Daði rifjar upp: „Olíumálverk voru ekki vel séð þegar ég var í myndlistarskólanum, það átti frekar að gera eitthvað sem leit út fyrir að vísa til dýpri sannleika. Mér gekk aldrei vel með þennan djúpa sannleika, ég fór að mála í villtum stíl og það gekk ágætlega, þar til ég fékk leið á tilvistarvandanum og fór í krúsidúllurnar sem voru ljúfari og á mannlegri skala.“ Líklega gætu ferðalangar Soffíu ekki verið lengra frá léttleikandi krúsudúlluheimi Daða og kannski eru þeir einmitt í leit að hinum dýpri sannleika.
Það er ekki bara landslagið sem sameinar þau Daða og Soffíu, heldur líka það að þau eru jafnvíg á olíumálverkið, grafík og vatnslitanotkun.Listamennirnir hafa átt langan farsælan feril á Íslandi og hafa sýnt á fjölda einkasýninga og samsýninga bæði á íslandi og erlendis.
Daði Guðbjörnsson er fæddur árið 1954. Daði nam við Myndlistarskóla Reykjavíkur á árunum 1969-1976 og í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1976-1980. Veturinn 1983-1984 var hann við Rijksakademi van Beeldende Kunsten í Amsterdam. Daði hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og eina í Þýskalandi. Hann hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi, í Danmörku, Japan, Þýskalandi, Króatíu, Frakklandi, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi.
Soffía Sæmundsdóttir er fædd árið 1965. Soffía stundaði nám við grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla íslands 1987-1991 og hlaut mastersgráðu í málun (MFA) frá Mills College í Oakland Kaliforníu 2001-2003.
Verk Soffíu hafa verið sýnd á ýmsum stöðum um allan heim, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir list sína, þar á meðal listamannalaun, Jay De Fao verðlaunin (2003) og Joan Mitchell málverka- og höggmyndaverðlaunin (2004). Hún var verðlaunahafi í alþjóðlegu málverkasamkeppninni Winsor og Newton árið 2000.. Verk hennar eru í eigu fjölmargra opinberra aðila og stofnana.