Kviksjá: Íslensk myndlist á 21.öld í Hafnarhúsi

þriðjudagur, 6. júní 2023
Kviksjá: Íslensk myndlist á 21.öld í Hafnarhúsi
Vegleg yfirlitssýning á listaverkum úr safneign Listasafns Reykjavíkur verður opnuð laugardag 10. júní kl. 16.00 í Hafnarhúsi.
Á sýningunni Kviksjá: Íslensk myndlist á 21. öld gefur að líta úrval af þeim verkum sem Listasafn Reykjavíkur hefur eignast síðustu tvo áratugi. Verkin gefa innsýn inn í þá breidd og þær áherslur sem hafa verið að mótast og gerjast í íslensku listalífi frá aldamótum 2000 til dagsins í dag. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur.
Á sýningunni er að finna listaverk úr safneigninni, eitt verk fyrir hvert ár frá 2000 til dagsins í dag. Sjá má verk eftir marga af fremstu samtímalistamönnum þjóðarinnar, viðamiklar innsetningar og umfangsminni verk. Verkin eru sumhver vel þekkt og vinsæl en nokkur
hafa sjaldan verið sýnd og gætu komið safngestum á óvart.
Valinn verður einn listamaður fyrir hvert ár 21. aldarinnar og tekur sýningin breytingum strax í haust þegar kviksjánni verður snúið og nokkur verk víkja fyrir öðrum, allt til þess gert að sýningin verði fjölbreyttari og gaman verði að sækja safnið heim aftur og aftur.
Meðal listamanna sem eiga verk á sýningunni eru Ragnar Kjartansson, Elín Hansdóttir, Ólafur Elíasson, Gabríela Friðriksdóttir, Katrín Sigurðardóttir og Birgir Andrésson svo einhverjir séu nefndir.
Sýningin er sú þriðja í sýningarröðinni Kviksjá sem er liður í því að varpa ljósi á safneign Listasafns Reykjavíkur.
Á Kjarvalsstöðum stendur nú yfir sýningin Kviksjá: Íslensk myndlist á 20. öld og fyrr á árinu var í Hafnarhúsinu sýningin Kviksjá erlendrar myndlistar.
Dagskrá sýningaropnunar laugardaginn 10. júní kl. 16.00:
Ragnheiður Jónsdóttir myndlistarmaður og handhafi heiðursverðlauna Myndlistarráðs opnar sýninguna.
Davíð Þór Jónsson tónlistarmaður flytur tónlistaratriði.