top of page

Kristján Guðmundsson látinn

508A4884.JPG

þriðjudagur, 25. nóvember 2025

Kristján Guðmundsson látinn

Kristján Guðmundsson
1941-2025
Kristján Guðmundsson myndlistarmaður er látinn, 84 ára að aldri.

Kristján fæddist 1. júní 1941 á Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi á Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Áslaug Sigurðardóttir skrifstofumaður og Guðmundur Árnason, rammasmiður og listaverkasali.

Kristján var sjálfmenntaður myndlistarmaður. Ferill hans spannar nærri sex áratugi en fyrsta sýning Kristjáns var haldin á Mokkakaffi í Reykjavík 1968. Hann var, ásamt Sigurði bróður sínum, einn af stofnendum Gallerís SÚM 1969. Kristján veitti Gallerí SÚM forstöðu fyrsta starfsár þess, áður en hann flutti til Amsterdam þar sem hann bjó í níu ár.

Hópurinn að baki Gallerí SÚM samanstóð af ungum, framúrstefnulegum listamönnum sem kölluðu sig Samband ungra myndlistarmanna – eins konar mótvægi við Samband íslenskra myndlistarmanna, SÍM. Hópurinn olli straumhvörfum í íslensku myndlistarlífi en hann var undir áhrifum frá nýjustu stefnum og straumum í evrópskri myndlist, á borð við Fluxus og Arte Povera.

Kristján er einn þekktasti fulltrúi hugmyndalistar hér á landi en hann sýndi víða á ferli sínum, hérlendis sem og erlendis, einna helst í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann fann fljótt sína eigin nálgun þar sem hann bræddi saman framúrstefnuhugmyndir sjöunda áratugarins við hina nýju hugmyndalist og sínar eigin hugmyndir um knappa, nauma framsetningu. Þannig tókust bókverk hans, teikningar og innsetningar á við eðli og takmörk hefðbundinna skilgreininga í listum og vísindum.

Kristján var valin ásamt Sigurði, bróður sínum, Hreini Friðfinnssyni og Þórði Ben Sveinssyni til að sýna við opnun Pompidou safnsins í París 1977. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1982 en árið 1993 hlaut hann medalíu prins Eugen frá Svíakonungi, árið 2010 sænsku Carnegie verðlaunin og árið 2022 heiðursviðurkenningu myndlistarráðs fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar.

Kristján hefur unnið með i8 gallerí frá stofnun þess 1995 en fyrsta einkasýning hans í galleríinu var árið 1997 og eru þær orðnar sjö talsins. Hann var með þrjár einkasýningar á þessu ári; Mostly Drawings í Persons Project í Berlín, Átta ætingar í Listasafninu á Akureyri og Svo langt sem rýmið leyfir í i8 gallerí.

Mynd: i8 Gallery

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page