Kristín Gunnlaugsdóttir: Ósagt - Leiðsögn sýningarstjóra

fimmtudagur, 11. desember 2025
Kristín Gunnlaugsdóttir: Ósagt - Leiðsögn sýningarstjóra
Sunnudag 14. desember kl. 14.00 leiðir Markús Þór Andrésson gesti í gegnum sýninguna Kristín Gunnlaugsdóttir: Ósagt sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum.
Kristín er einn afkastamesti og ástsælasti listamaður samtímans sem á að baki fjölmargar viðamiklar sýningar og verk víða í opinberri eigu. Hún hefur vakið athygli fyrir að vera óhrædd við að brjóta upp myndmál sitt og aðferðir. Hún sækir í aldagamlar hefðir íkonamálunar og skapar fígúratíf málverk sem byggjast á margslungnu táknkerfi. Þá vinnur hún abstraktverk sem kallast á við tjáningarmáta módernismans, sem og vandlega útfærð útsaumsverk sem byggja á skjótunnum skissum - svo nokkur dæmi séu tekin.
Á sýningunni fæst gott yfirlit yfir feril listakonunnar um leið og þar má sjá ný og óvænt verk sem sérstaklega eru unnin að þessu tilefni.
Kristín er níundi listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. Hvert og eitt þeirra er valið með tilliti til einstaks framlags þeirra og sérhæfingar á sínu sviði, bæði hvað viðvíkur miðlum, aðferðum og viðfangsefnum. Slík stöðutaka á sér stað í framsetningu lykilverka frá ólíkum tímum í Vestursal Kjarvalsstaða og útgáfu sýningarskrár þar sem fjallað um ferilinn í samhengi listasögunnar og samtímans.
Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir Árskorts- og Menningarkorthafa, frítt fyrir yngri en 18 ára.
Gestir eru beðnir að skrá sig á viðburðinn á vefsíðu safnsins.


