KONUR KJÓSA - Una Þorleifsdóttir & Ebba Katrín Finnsdóttir

föstudagur, 20. júní 2025
KONUR KJÓSA - Una Þorleifsdóttir & Ebba Katrín Finnsdóttir
Una Þorleifsdóttir og Ebba Katrín Finnsdóttir taka yfir Gryfjuna í Ásmundarsal næstu vikurnar og vinna að nýju sviðsverki sem byggir á bókinni Konur sem kjósa – aldarsaga eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttir. Verkið skoðar sögu íslenskra kvenkjósenda og hvernig konur hafa mótað samfélagið í gegnum baráttu fyrir réttindum, sýnileika og sjálfstæði í eitt hundrað ár.
Í sviðsverki Ebbu og Unu verður unnið út frá uppbyggingu bókarinnar, sem skiptist í 11 kafla – einn fyrir hvert kosningaár, hvers áratugar frá 1915. Á opinni vinnustofu munu þær nýta þessa kaflaskiptingu og vinna útfrá einum áratug í einu með það að markmiði að draga fram sögur kvenna. Efnið sem verður til verður sýnilegt í rýminu sjálfu – fest á veggi, sett upp í textabrotum eða framkallað í efnislegum gjörningum – þannig að vinnustofan verður smám saman að safni ólíkra verka; texta, frásagna, vídjó og gjörninga sem saman munu mynda grunn að stærra sviðsverkefni.
Vinnuaðferðir þeirra eru frjálsar og takmarkalausar – söngur, dans, hreyfing, textar, vídjó og tónlist – og þær hafa það að markmiði að skoða, rannsaka og lyfta þeim röddum sem ekki fengu að heyrast, og gera það með valdeflandi, skapandi og ögrandi hætti.
Gestum er velkomið að koma við og fylgjast með opnu vinnuferli og sjá hvernig nýtt sviðsverk tekur á sig mynd, alla virka daga frá 12-16.