Kompan, Alþýðuhúsið Siglufirði: Samtal - Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
föstudagur, 3. desember 2021
Kompan, Alþýðuhúsið Siglufirði: Samtal - Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Kompan 3. 12. - 22.12. 2021
Samtal
Á undanförnum áratugum hafa kynni mín af krossviðarplötum verið með ýmsu móti. Málaðir kjólar
á þvívíða skúlptúra, kápur, buxnaskálmar, fossar í lágmyndir, iðandi vatnsflaumur eða flæðandi
flæðilínur. Samvinna mín og samtal við viðaræðar krossviðarplötunar er nú orðið töluvert og mikil
reynsla og virðing komin á samskiptin. Og nú leiðir platan mig á enn nýjar slóðir þar sem lífrænt
flæði gróðurs og blóma sameinast á myndfletinum. Sýninguna samtal vann ég í september
síðastliðnum og set upp eins og jafnan í desember í Kompunni. Samhliða sýningunni opna ég fyrir
jólamarkað í Anddyri Alþýðuhússins þar sem sjá má lítil verk eftir mig sem ratað gætu í jólapakka.
Athugið að virða allar sóttvarnir við komu og verið velkomin.
Sýningin stendur til 22. desember og er opin frá kl. 14.00 - 17.00
Uppbyggingasjóður, Fjallabyggð og Aðalbakarí styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir fæddist á Siglufirði 23.júní 1963 og bjó þar til 1986,
þá fluttist hún til Akureyrar. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri
1989-93 og hefur síðan unnið ýmis störf á sviði myndlistar ásamt því að vera
athafnasamur myndlistamaður. Aðalheiður starfrækti Kompuna, gallerí á Akureyri í
8 ár, tók virkan þátt í uppbyggingu "Listagilsins" á Akureyri og er einn af stofnenda
Verksmiðjunar á Hjalteyri. Hún hefur verið í sýningarnefnd Skaftfells á Seyðisfirð,
gjaldkeri Gilfélagsins á Akureyri og varaformaður Myndlistafélagsins á Akureyri.
Aðalheiður er félagi í Sím og Myndhöggvarafélaginu. Árið 2000 var hún útnefnd
Bæjarlistamaður Akureyrar og sama ár hóf hún þátttöku í Dieter Roth akademíunni.
Aðalheiður hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun ríkisins. Í desember 2011 keypti
Aðalheiður Alþýðuhúsið á Siglufirði og hefur komið upp vinnustofu þar. Einnig
stendur hún fyrir mánaðlegum menningarviðburðum og hefur endurvakið Kompuna
í litlu rými þar. Aðalheiður hlaut menningarverðlaun DV árið 2015 og var tilnefnd til
Eyrarrósarinnar 2017 og 2020 fyrir starfið í Alþýðuhúsinu. Nýverið var hún útnefnd
Bæjarlistamaður Fjallabyggðar. Vinnustofa og heimili Aðalheiðar er í Alþýðuhúsinu á
Siglufirði og í Freyjulundi, 601 Akureyri.
Sími: 865-5091. www.althyduhusid.com www.freyjulundur.is