top of page

Kirsuberjatréð: Greinar og græðlingar - Aðalheiður Valgeirsdóttir

508A4884.JPG

föstudagur, 20. maí 2022

Kirsuberjatréð: Greinar og græðlingar - Aðalheiður Valgeirsdóttir

Aðalheiður Valgeirsdóttir sýnir í Kirsuberjatrénu 19. maí – 2. júní 2022.

Greinar og græðlingar
Fimmtudaginn 19. maí kl. 16:00 verður opnuð sýning á vatnslitamyndum Aðalheiðar Valgeirsdóttur í Kirsuberjatrénu Vesturgötu 4 undir yfirskriftinni Greinar og græðlingar.
Viðfangsefni verkanna tengist náttúrunni, vorinu og gróskunni. Náttúran teiknar sig sjálf í greinum og hríslum og kallar á afstrakt útfærslu þar sem greinar kvíslast, vefjast saman og teygja úr sér í líflegu línuspili. Agnarlítill frjóangi sem hlúð er að gefur fyrirheit um gróskumikla plöntu. Græðlingur felur í sér kraft, þrautseigju, von og nýja plöntu jafnvel stórt tré í tímans rás. Í myndröðinni Græðlingar er leitast við að myndgera og túlka aflið, vöxtinn og lífið sem felst í hinu smáa og fjölbreytileika lífsins.

Aðalheiður Valgeirsdóttir er myndlistarmaður, sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist frá grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982 og hefur unnið að myndlist síðan. Hún lauk BA og MA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands. Aðalheiður er félagi í SÍM, félaginu Íslensk grafík og Listfræðafélagi Íslands. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga m.a. í Listamenn gallerí, Gerðarsafni, Ásmundarsal og Hallgrímskirkju og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Verk eftir Aðalheiði eru til sölu hjá Listval í Hörpu. Hún hefur unnið ýmis verkefni á sviði listfræði, sem kennari og greinahöfundur og verið sýningarstjóri í söfnum og galleríum. Aðalheiður býr í Reykjavík og í Biskupstungum þar sem hún hefur vinnustofu. Verk hennar eru unnin á mörkum hins hlutlæga og huglæga í beinum tengslum við náttúruna og síbreytilegar birtingarmyndir hennar allan ársins hring.

Sýningin er opin á opnunartíma Kirsuberjatrésins mánudaga-föstudaga kl. 10-18, laugardaga og sunnudaga 10-17.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page