top of page

Jennifer Rooke - The Second Tasting

508A4884.JPG

fimmtudagur, 22. ágúst 2024

Jennifer Rooke - The Second Tasting

The second tasting sýnir röð teikninga unnar með fínum penna og yfirstrikunar-tússi þar sem kafað er í samspil verunar og sköpunar. Teikningarnar eru íhugult afturhvarf til liðinna atburða, hæg framköllun, líkamleg og huglæg. Sjónrænar frásagnir sem fagna bæði augnablikum með öðrum og tigna rými einsemdar.

Rooke nálgast teikningu í gegnum dagbókarferli og nýtir miðilinn sem rými til að sýna einkaveru(na) almenningi. Mörg smærri verkanna á sýningunni eru teiknaðar upplifanir og myndir skráðar á ferðum hennar um Norður-Evrópu á árunum 2019-2020 og þar á meðal þriggja mánaða dvöl listakonunnar í SÍM gestavinnustofu. Þau verk blandast nýrri augnablikum og mynda heild sem bjóða okkur að staldra aðeins við örstutt andartökin og flöktandi flæði tímans í nærumhverfi okkar.

Speglanir og gluggar, tilfinningin að líta inn eða út eru algeng viðfangsefni teikninganna. Rooke grandskoðar endurkast og liti í blómavasa eða spegli, merkir fínleg ljóshvörf dagsins eða ljóma raflýsingar. Í ferlinu vísar hún gjarnan í ljósmyndir, teikningin aðferð til að dýpka sýnina á vettvanginum. Hún kynnist andartakinu með síendurtekinni framköllun, athugun og úrvinnslu.

Þótt teikningar Rooke vinni með sjálfsskynjun og hvernig við sýnum okkur sjálf í gegnum umhverfi okkar, sjáum við vini slæðast inn í mengið. Hvernig upplifum við okkur í eigin rými? Hvernig er upplifun sjálfsins meðal annarra? Áhorfanda er boðið að glöggva sig á sjónarhorni listakonunnar en einnig verða vitni að því að horfa á sjálfan sig.

Jennifer Rooke (f. 1990) er listakona frá Melbourne/Naarm í Ástralíu, með BA í myndlist (Honours) frá Monash Háskóla og BA í myndlist frá RMIT Háskóla. Þótt verk hennar hverfist að mestu um teikninguna þá málar hún líka og vinnur með prent, innsetningar og gjörninga.

Rooke hefur tekið þátt í vinnustofum í Arteles Creative Center, Finnlandi; SÍM Residency, Ísland; og Cradle Mountain Wilderness Gallery, Ástralíu. Einkasýningar hennar hafa meðal annars verið Flatland, NGBE Gallery; A Journal is Written on the Pulse of the Moment, First Site Gallery; Wish you were here…, Mailbox Art Space; og Concealment and Disclosure, Seventh Gallery. Hún hefur tekið þátt í samsýningum í Ástralíu og á alþjóðavettvangi og hefur sjálf gefið út litabækur.

Sýningaropnun verður fimmtudaginn 22. ágúst frá 18:00-20:00 og allir velkomnir!

Aðrir opnunartímar:
Föstudagur 23. ágúst 13:00 - 18:00
Laugardagur 24. ágúst 12:00 - 17:00
Sunnudagur 25. ágúst 14:00 - 17:00

Viðburðurinn er styrktur af Menningar og ferðamálanefnd Hafnarfjarðarbæjar.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page