Jenný Mikaelsdóttir : Hlýja Kuldans - Warmth of the cold
fimmtudagur, 22. febrúar 2024
Jenný Mikaelsdóttir : Hlýja Kuldans - Warmth of the cold
Stígðu inn í heim ‘Hlýja Kuldans’ sem er útskriftarverk Jennýjar úr Konunglega Listaháskólanum í Haag, Hollandi. Ljósmyndasýningin er innblásin af nýútgefinni ljósmyndabók ‘Warmth of the cold’ og er bókin einlægt ferðalag í gegnum kuldalegt landslag þar sem hún rannsakar hlýjuna sem verður til við sjóinn að vetri til.
Sjórinn hefur aðdráttarafl en á sama tíma getur hann verið ógnvekjandi. Áherslan er lögð á hversu stór náttúruöflin eru á móti frumum líkamans. Þessi öfl geta leitt fólk saman og búið til samfélagskennd. Á síðum ljósmyndabókarinnar eru myndir frá 'Spaarnestad Photo Collection.' Til marks um söguna um að það sé ekkert nýtt við að koma saman í kuldanum, bara í sundfötum.
Manneskjur safnast saman sem skjöldur á sjávarbakkanum og mynda verndarhring. Týndar í straumum augnabliksins komast þær í flæði þar sem tími og hætta hverfa á braut. Í þessari kraftmiklu einingu verða líkamar og hafið að einu. Spurningin er ekki að sigrast á ólgusjónum heldur sigrast á ólgunni innra með sér. Hræðsla verður minni þegar fleiri eru í sömu sporum eða í sömu sjósundsskónum.
Jenný Mikaelsdóttir (1997) er ljósmyndari frá Íslandi. Hún lauk nýlega BA-prófi í ljósmyndun frá Konunglega Listaháskólanum í Haag, þar sem hún er búsett. Hún vinnur með þemu sem snerta á sálarlífi og mannlegri hegðun. Verkin verða oft leit að jafnvægi í andstæðum umhverfisins. Náttúran veitir innblástur. Með því að tileinka sér innsæi og leik í verkefnum sínum skapar hún ljóðræna spennu milli ljósmyndarinnar og annarra þátta eins og texta, klippimynda og skjalasafna.
‘Warmth of the cold’ ljósmyndabókin var prentuð í takmörkuðu upplagi og verður til sölu á sýningunni ásamt ljósmyndum.
Sýningaropnun er 22. feb frá 18:00-20:00 og allir velkomnir!
Aðrir opnunartímar:
Föstudagur 23. feb 13:00 - 18:00
Laugardagur 24. feb 12:00 - 17:00
Sunnudagur 25. feb 14:00 - 17:00