Innangarðs og utan: söfnun á jaðrinum
fimmtudagur, 7. mars 2024
Innangarðs og utan: söfnun á jaðrinum
Safnasafnið og Nýlistasafnið leiða saman hesta sína í samstarfi við Norræna húsið og blása til málþings þann 14. Mars, kl: 15:00 í Norræna húsinu um söfnun á jaðrinum, umhverfi safna með sértæk markmið og söfnunargildi – hvert hlutverk þeirra sé innan vistkerfi lista og hvert þau stefna.
Athugið að viðburðurinn fer fram á íslensku en verður textaður og túlkaður á ensku í rauntíma.
Erindi flytja:
Margrét M. Norðdahl, stofnandi Listvinnslunnar, í stjórn Listar án landamæra og áður í stjórn Safnasafnsins
Sigríður Regína Sigurþórsdóttir, safneignarfulltrúi Nýlistasafnsins
Elísabet Gunnarsdóttir, formaður stjórnar Myndlistarmiðstöðvar og forstöðumaður Listasafns ASÍ
Oddný Eir Ævarsdóttir, heimspekingur, skáld og dagskrárgerðarkona
~ stutt hlé með hressingu ~
Pallborð:
Auður Jörundsdóttir, forstöðumaður Myndlistarmiðstöðvar
Helga Lára þorsteinsdóttir, safnstjóri safnkosts RÚV og einn fulltrúa Safnaráðs
Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor í safnafræðum í Háskóla Íslands
Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands
Stjórnendur og spyrlar eru Sunna Ástþórsdóttir (formaður stjórnar Nýlistasafnsins) og Unnar Örn Jónsson (myndlistarmaður og stjórnarmaður Safnasafnsins)
Nýlistasafnið og Safnasafnið eiga það það sameiginlegt að hafa áunnið sér sess sem frumlegar skapandi stofnanir hvers hlutverk er að mæta vöntun í söfnun og miðlun hérlendis og líta til allra átta í leit sinni að listamönnum og verkum sem falla að söfnunar- og sýningarstefnu þeirra.
Þingið er hugsað sem sjálfstætt framhald málþings sem Safnasafnið hélt árið 2018 í Þjóðminjasafninu og bar heitið Frá jaðri til miðju. Þá var lögð áhersla á þróun og stöðu alþýðulistar hér á landi. Strax í kjölfarið var ljóst að þörf er á að halda á lofti orðræðu tengdri listsköpun jaðarhópa og þeirra listamanna sem falla utan „stóru listasögunnar“, en einnig hvort og á hvaða hátt söfnunarstefna safna hér á landi tekur til hugmynda um margbreytileika, jafnrétti og jafnræði. Með málþinginu er ætlunin að taka upp þessa þræði og leggja áherslu á söfnunarstefnu sem lýtur að verkum sem teljast til jaðarsins í samtímanum.
Ef það var þannig árið 2018 að jaðarinn var tiltölulega vel skilgreind eining, sem væri að nálgast miðjuna að einhverju leyti, þá mætti segja að í dag séu þessar hugmyndir óræðari. Það er erfiðara að koma auga á hvar miðjan hættir og hvar jaðarinn byrjar, eða þá hvort þessi hugtök eiga enn rétt á sér. Listamenn af ólíkum toga vinna nú saman ólíkt því sem áður var og í dag er rík krafa um að aðferðir söfnunar, og dagskrárgerðar, taki betur mið af þörfum ólíkra hópa. Á málþinginu verður lagt upp með að stofna til samtals sem horfir til margslungins samtíma með sérstaka áherslu á þau tækifæri og áskoranir sem lítil söfn með sértæka söfnunarstefnu glíma við og það umhverfi sem þeim er búið.