top of page

Hverfisgallerí: Kannski, kannski - Guðmundur Thoroddsen

508A4884.JPG

föstudagur, 11. nóvember 2022

Hverfisgallerí: Kannski, kannski - Guðmundur Thoroddsen

Laugardaginn 12. nóvember kl 16-18 opnar Guðmundur Thoroddsen þriðju einkasýningu sína í Hverfisgalleríi og ber hún titilinn Kannski, kannski og eru sýnd ný olíumálverk þar sem listamaðurinn hefur sagt skilið við huldar tilvísanir og áþreifanleg hugtök. Þess í stað sækja málverkin enn lengra inn í sitt eigið óhlutbundna mál og myndbyggingu. Þar sem einu sinni voru láréttar línur sem gáfu til kynna landslag og lóðréttar línur sem táknuðu rými eða fólk innan dyra, hafa litir, áferð og sveiflukennd hreyfing leyst beina merkingu, fígúratív form og myndmál af hólmi. Mistraðir litirnir á litaspjaldi Guðmundar; dempaðir súkkulaðibrúnir og purpurarauðir, bleikir ferskjulitir með ryðtón, angurværir gráir og földrappaðir litir, mæta rafmögnuðum bláum lit, djúpbláum og dimm-þalósýanín grænum. Verkin eru byggð upp með frjálslegum, þokukenndum eða óljósum pensilstrokum og einfaldari formum, áhersla á tjáningu tilfinninga eða fígúratívar myndir er minni. Í staðinn afhjúpa lög málverkanna, útlínur og óræð form hvernig verkin eru byggð upp, sýna ferlið og geta virkað eins og hluti af myndaröð.

GUÐMUNDUR THORODDSEN (1980) lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og útskrifaðist með MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2011. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi og erlendis. Þar má nefna einkasýningarnar í Hverfisgalleríi, Hundaholt, hundahæðir árið 2020 og Tittlingaskítur árið 2017, Snib, Snab, Snubbur 2018/19 í Hafnarborg og Earth to Earth árið 2019 í Asya Geisberg Gallery í New York. Fjallað hefur verið um sýningar hans í ýmsum fjölmiðlum, s.s. Artforum, The New York Times, Time Out New York og Dazed Digital. Hann hefur hlotið styrki úr styrktarsjóðum Guðmundu Andrésdóttur, Myndstefs, KÍM og Evrópu unga fólksins, auk Listamannalauna. Guðmundur var tilnefndur til Íslensku Myndlistarverðlaunanna fyrir Snib, Snabb, Snubbur árið 2109. Guðmundur er á mála hjá Hverfisgalleríi og Asya Geisberg Gallery í New York. Verk Guðmundar upphefja oft, henda gaman að og horfa gagnrýnum augum á hvernig merking er byggð upp og frásögnin þróast á striganum. Hann beitir húmor og fjölbreyttum en hefðbundnum miðlum á borð við leir, vatnsliti, teikningu og málun. Myndmál Guðmundar spannar vítt abstraktróf; stundum með áherslu á hluti sem yfirleitt eru taldir tilheyra karlkyninu (körfubolti, bjórbruggun, þvaglát og veiðar) en stundum á yfirborð nánast óþekkjanlegra forma, lita og vísana.

Sýningin Kannski, kannski stendur til 7. janúar.

Meðfylgjandi er ein mynd af verki og mynd af listamanninum.
-GUÐMUNDUR THORODDSEN, Þolinmæði, olía á striga. 100x120cm. Mynd: Vigfús Birgisson.
-Mynd af listamanni.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page