top of page

Hvað gerðist hér? Agnieszka Sosnowska og Ingunn Snædal opna sýningu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

508A4884.JPG

fimmtudagur, 26. september 2024

Hvað gerðist hér? Agnieszka Sosnowska og Ingunn Snædal opna sýningu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

RASK er yfirskrift sýningar sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, laugardaginn 28. september kl. 15. Ljósmyndarinn Agnieszka Sosnowska hefur ásamt ljóðskáldinu Ingunni Snædal búið til myndræna frásögn þar sem þær spyrja: „Hvað gerðist hér?

Hefurðu einhvern tíma prófað að safna saman brotum og haldið að þú getir lagað þau? Hefurðu getað komið þeim aftur í samt horf? Hafa þau einhvern tímann orðið eins og þau voru áður? Urðu þau sterkari eða veikari en áður? Samtalið er á andlegum nótum og einkennist af forvitni. Í þessari myndrænu frásögn um landrof, hvernig land brotnar niður á Austurlandi af völdum vinds, ofbeitar, sífrera og ferðaþjónustu, varpa þær fram spurningunni: Hvernig stjórnar maður hinu óviðráðanlega?

Agnieszka Sosnowska (f. 1971) er fædd í Varsjá í Póllandi. Þriggja ára gömul flutti hún ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna og settust þau að í Boston í Massachusetts fylki. Árið 2023 var henni úthlutað listamannadvöl á vegum Light Works í New York. Vegleg ljósmyndabók sem ber heitið “För” og mun innihalda afrakstur ljósmynda hennar af Austurlandi frá síðustu tuttugu árum verður gefin út af bókaforlaginu Trespasser Books síðar á árinu. Agnieszka flutti til Íslands árið 2003 og hefur búið á bænum Kleppjárnsstöðum á Fljótsdalshéraði undanfarin tuttugu ár. Hún hefur verið grunnskólakennari í fullu starfi síðastliðin tuttugu og fimm ár og kennir ensku í litlum sveitaskóla á svæðinu.

Ingunn Snædal (f. 1971) er ljóðskáld, þýðandi, ritstjóri og kennari. Hún hefur þýtt yfir hundrað skáldsögur og barnabækur úr dönsku, norsku, sænsku, ensku og íslensku, verið tilnefnd til verðlauna og hlotið viðurkenningar fyrir þýðingar sínar. Um árabil hefur Ingunn einnig þýtt leikrit og ljóð, ritstýrt skáldsögum, þýtt og séð um prófarkarlestur fyrir listasöfn, leikhús og ferðahandbækur. Hún hefur gefið út sex ljóðabækur sem hún hefur hlotið viðurkenningar og verið tilnefnd til verðlauna fyrir og hafa þær til dæmis verið þýddar á ensku, þýsku, norsku og tyrknesku. Ingunn býr í Reykjavík.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page