Hulda Vilhjálmsdóttir: Ég er Gegnsæ í Listval
miðvikudagur, 21. júní 2023
Hulda Vilhjálmsdóttir: Ég er Gegnsæ í Listval
Laugardaginn 24. júní milli kl 16-18 opnar einkasýning Huldu Vilhjálmsdóttir Ég er Gegnsæ í nýju húsnæði
Listvals að Hverfisgötu 4. Hulda sýnir ný abstrakt klippiverk sem unnin eru á pappír.
Allt frá útskrift hefur Hulda helgað sig málaralistinni og haldið fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis. Hún er einna þekktust fyrir fígúratíf málverk þar sem manneskjan, tilfinningar og tilveran er hennar megin viðfangsefni. Á sýningunni
Ég er gegnsæ kannar hún gagnsæið með japanskri málaratækni og pappír í verkum þar sem gagnsæ tákn og myndir spretta fram. Í verkunum kafar hún ofan í sameiginlegan skynheim og tilfinningar og í þetta sinn beitir hún óhlutlægri, abstrakt nálgun.
Listval verið leiðandi í myndlistarráðgjöf fyrir einstaklinga og fyrirtæki undanfarin ár. Galleríið var áður til húsa í Hörpu og með sýningarrými á Granda en sameinar nú starfsemi sína á Hverfisgötu 4. „Með flutningum á Hverfisgötu 4 fáum við meira rými fyrir starfsemina og þjónustu við viðskiptavini en við höfðum áður. Hér getum við tekið vel á móti gestum, veitt leiðsagnir um yfirstandandi sýningar, aðstoðað við myndlistarval og veitt ráðgjöf, allt á einum stað. Húsið er líka á frábærum stað í bænum, mjög sýnilegt og aðgengilegt” segir Elísabet Alma Svendsen.
Listval var stofnað árið 2019 með það að markmiði að kynna íslenska samtímtímamyndlist og veita ráðgjöf við val á verkum.. Eigendur gallerísins þær Elísabet Alma Svendsen og Helga Kjerúlf hafa báðar starfað þvert á svið myndlistar og hönnunar við fjölbreytt verkefni og með góða innsýn og tengsl inn í myndlistarsenuna. „Nýja húsnæðið færir okkur að einhverju leyti í nýjan farveg þar sem við munum nú vinna sem umboðsaðilar fyrir listamenn ásamt því að annast endursölu listaverka. Kjarni starfseminnar verður þó sá sami og munum við áfram bjóða upp á úrval af myndlist og stuðla að bættu aðgengi almennings að myndlist“ segir Helga Björg Kjerúlf.
Listval hefur starfað með breiðum og valinkunnum hópi margra af fremstu listamönnum landsins og haldið fjölda einka- og samsýningar í galleríinu.
Sýningin Ég er gegnsæ stendur til 12. ágúst og opin miðvikudaga til föstudaga frá 13-17, laugardaga frá 13-16 og eftir pöntun.