Hugarheimar - Dóra Kristín og Berglind - Sýningaropnun
þriðjudagur, 29. ágúst 2023
Hugarheimar - Dóra Kristín og Berglind - Sýningaropnun
Dóra Kristín Halldórsdóttir og Berglind Hrafnkelsdóttir.
Sýningaropnun á Sólheimum í Grímsnesi 2. september kl.14-16. Atli Steinn Hrafnkelsson, sonur og bróðir, flytur tónlist.
Sýningin stendur út mánuðinn. Allir velkomnir.
Berglind er fædd í Reykjavík 1976. Hún ólst upp á Snjallsteinshöfða í Landsveit og á Selfossi.
Berglind er mjög listræn og hefur skapað með sér fallegan myndheim með ævintýrablæ.
Hún segir sögur í myndum sínum, blandar saman stórum sem litlum fígúrum, húsum, fjöllum, dýrum, blómum og fuglum.
Þegar hún sækir sér fyrirmyndir í blöð eða bækur verða til skemmtilegar eftirmyndir sem bera sterk höfundareinkenni og úr verður nýr ríkulegur myndheimur sem öðlast sjálfstæði frá upphaflegri fyrirmynd.
Berglind hefur búið á Sólheimum frá árinu 2018 og þar hafa listrænir hæfileikar hennar blómstrað.
Dóra Kristín er fædd í Reykjavík 1953 og ólst þar upp. Á árunum 1974–1989 var hún bóndi, kenndi myndlist í yfir 20 ár og frá árinu 2004 hefur hún helgað sig myndlist.
Á sýningunni eru vatnslita og akrýl verk sprottin úr hugarheimi listamannsins sem njóta sín vel í flæði litarins.
Dóra Kristín lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1982.
Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum á Íslandi og erlendis. Hún er félagi í SÍM, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og er með vinnustofu á Korpúlfsstöðum í Reykjavík.