top of page

Hringrás: Tumi Magnússon

508A4884.JPG

fimmtudagur, 30. maí 2024

Hringrás: Tumi Magnússon

Laugardaginn 8. júní opnar sýningin Hringrás eftir Tuma Magnússon í sal 2 í Listasafni Íslands.

Verkið Hringrás er er frumsýnt í tengslum við Listahátíð í Reykjavík 2024. Um ræðir 14 rása vídeó- og hljóðinnsetningu sem fyllir salinn myndum og hljóðum.

Í verkinu koma saman allar þær ólíku vinnuaðferðir sem Tumi hefur tileinkað sér í gegnum tíðina, jafnt í málverkum og ljósmyndum á tíunda áratugnum sem í vídeóverkum síðustu 20 ára. Hann skeytir saman ólíkum fyrirbærum, togar í sundur, snýr upp á, vinnur með ólíkan hraða og leggur að jöfnu eitthvað örsmátt og annað gríðarstórt. Hann veltir fyrir sér hvað það tekur langan tíma að fara frá einum stað til annars og hraðanum sem þarf til að komast á áfangastað. Hann veltir einnig fyrir sér hvernig við skynjum samspil þessara þátta í rýminu – hraða og tíma. Í verkinu kallar Tumi fram óvænta fleti á kunnuglegum fyrirbærum sem kveikir ný hugrenningatengsl hjá áhorfandanum. 

Hinn manngerði hversdagsleiki hefur löngum verið Tuma hugleikinn en í verkinu Hringrás tekst hann á við náttúruna á óvæntan hátt.

Tumi Magnússon er fæddur 1957 á Íslandi. Hann stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í Academie voor Beeldernde Kunst í Hollandi. Fyrsta einkasýning hans var 1981 í Rauðahúsinu á Akureyri og hefur hann haldið fjölda sýninga síðan.
 
Í upphafi ferils síns notaði Tumi ýmsa miðla, hann gerði þrívíð verk, ljósmyndir og kvikmyndir á 8mm filmum. Í byrjun níunda áratugarins fór hann að gera tilraunir með málverk og teikningar, en í verkum hans frá þessum árum má sjá áhrif bæði frá hinu svokallaða ,,Nýja málverki“ sem og hugmyndalist. Áratuginn þar á eftir gerði hann ýmsar tilraunir með þanþol málverksins sem miðils og þróuðust verk hans yfir í innsetningar og veggverk og fór hann í framhaldinu að nota ljósmyndir við gerð veggverka ásamt vídeói og hljóð í innsetningar.
 
Tumi var prófessor við Listaháskóla Íslands frá 1999 til 2005 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn frá 2005 til 2011. Hann býr og starfar að mestu í Kaupmannahöfn, en dvelur að jafnaði á Seyðisfirði á sumrin.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page