Hreinn Friðfinnsson og Sigurður Guðjónsson í Ásmundarsal
fimmtudagur, 18. janúar 2024
Hreinn Friðfinnsson og Sigurður Guðjónsson í Ásmundarsal
Verið velkomin á fyrstu opnun ársins í Ásmundarsal laugardaginn 20. janúar frá kl.16-18. Um er að ræða tvær sýningar sem opna sama dag – verkið Hulduklettur eftir Hrein Friðfinnsson í sýningarsal og verkið Edda eftir Sigurð Guðjónsson í Gunnfríðargryfju.
Hulduklettur (2017-2024) er innsetning Hreins Friðfinnssonar þar sem gegnumgangandi þema verksins er hinn gullni spírall oftast kenndur við Fibonacci. Verkið var upprunalega sýnt í Gallerie Nordenhake í Berlín 2017 og hefur nú verið flutt til Íslands og endurgert að hluta til.
Í verkinu Edda (2013-2024) eftir Sigurð Guðjónsson sjáum við dáleiðandi hreyfingar segldúka. Hrynjandi, flæði og endurtekning framkalla skynræna upplifun í verkinu, þar sem leikið er með skala og órætt samhengi. Í Gryfjunni í Ásmundarsal fyllir umfangsmikil vörpun heilan vegg í þröngu rýminu, sem staðsetur áhorfandann nálægt myndinni. Djúpt, fjarlægt hljóð framkallar áþreifanlega, næstum líkamlega upplifun af hljóði og mynd.
Hreinn Friðfinnsson fæddist á Bæ í Dölum árið 1943 og útskrifaðist frá Handíða- og myndlistaskóla Íslands 1960. Hann er einn af frumkvöðlum nýlistar og hugmyndalistar hér á landi og var m.a. var einn af stofnendum SÚM. Verk Hreins eru í senn ljóðræn og heimspekileg og snúast iðulega um eitthvað sem ekki er eða eitthvað loftkennt og ósnertanlegt eins og ljósið eða vindinn. Hreinn hefur sýnt verk sín víða um heim, meðal annars yfirlit sýningin: To Catch a Fish with a Song, Centre d’Art Contemporain, Geneva og KW Institute for Contemporary Art, Berlin (2019) Midnight Jump, Rozenstraat - a rose is a rose is a rose, Amsterdam (2020) For the Time Being, MOAD - Museum of Art and Design, Miami, Florida (2021) Arter, Istanbul (2021,2022) Musée d'Art Contemporain de Lyon, Lyon (2022).
Sigurður Guðjónsson (f. 1975) er þekktur fyrir magnþrungin vídeóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Hann beinir einkum sjónum að virkni margs konar tækjabúnaðar, þar sem áhorfandinn er lokkaður inn í heim sefjandi endurtekningar, takts og reglu og mörk hins mannlega og vélræna verða óljós. Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 fyrir sýninguna Innljós. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum, meðal annars í Listasafni Íslands (IS), Listasafni Reykjavíkur (IS) , Scandinavia House, (US), Frankfurter Kunstverein, (DE), Arario Gallery, (CN), Liverpool Biennial, (UK) og Hamburger Bahnhof, (DE). Hann vinnur oft náið með tónskáldum, þar sem samstarfið leiðir af sér flókin verk þar sem hinir sjónrænu þættir renna heillandi saman við tónlistina í einni rytmískri og tónrænni heild.