top of page

Hlynur Hallsson í Gallery Port

508A4884.JPG

fimmtudagur, 5. september 2024

Hlynur Hallsson í Gallery Port

Laugardaginn 7. september opnar Hlynur Hallsson sýningu sína Herbergi með útsýni / A Room with a View í Gallery Port. Opnunin stendur yfir milli 15-17 og eru allir velkomnir. Léttar veitingar.
Verkin eru öll frá þessu ári, ljósmynda/textaverk, spreyverk og teikningar.

„Spreyjaðir þjóðfánar nokkurra landa, dagbókarteikningar og ljósmyndir með stuttum texta á íslensku og ensku og svo tungumáli landsins þar sem myndin er tekin. Þrjár myndraðir ólíkra verka. Teikningar fyrir hvern dag í Þúsund daga bókunum, einfaldar teikningar af einhverju hversdagslegu. Herbergi með mismunandi útsýni, mismunandi árstíð, mismunandi staðir og stuttir textar sem lýsa því sem sést eða sést ekki. Þjóðfánar sem tákn fyrir lönd, þjóðir, yfirráð og stjórnmál.”

Í tilefni sýningarinnar kemur út bókin Þúsund dagar - Dagur eitthundraðþrjátíuogníu til tvöhundruðfjörtíuogþrjú sem er sjálfstætt framhald bókverksins Þúsund dagar - Dagur eitt til eitthundraðþrjátíuogátta sem kom út í Pastel ritröð hjá Flóru árið 2017.

Bókin er byggð á dagbókum Hlyns, sem hann hefur skrifað undanfarin 40 ár og hugleiðingum þeim tengdum. Bókin er 40 síður, gefin út í 100 tölusettum og árituðum eintökum.

Herbergi með útsýni er 74 einkasýning Hlyns sem hefur verið starfandi myndlistarmaður í rúmlega 30 ár.
Síðustu einkasýningar Hlyns hafa verið „Rendur og stjörnur” í Gallerí Listamenn í Reykjavík 2023, „abandoned stories” í Kasseler Kunstverein, í Fridericianum í Kassel ásamt Jenny Michel, 2021. Sýningin „Now or never” í Muur, Höfn í Hornafirði, 2020 og „alltsaman - das ganze - all of it“ í Kunstraum München, 2018 og „þetta er það - das ist es - this is it“, hjá Kuckei + Kuckei í Berlín, 2015.

Verk eftir Hlyn má finna í safneignum Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Listasafnsins á Akureyri, Nýlistasafnsins auk einkasafna í Evrópu.

Hlynur Hallsson var safnstjóri Listasafnsins á Akureyri 2014-2024 og hefur einnig kennt við Myndlistarskólann á Akureyri, Listaháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og unnið sem sjálfstætt starfandi sýningarstjóri og sett upp sýningar hjá Nýlistasafninu, Kuckei+Kuckei í Berlín, Kunstraum Wohnraum og Villa Minimo í Hannover, Kunstverein Hannover og hjá Chinati Foundation í Marfa, Texas. Hann var einn þeirra listamanna sem stofnuðu Verksmiðjuna á Hjalteyri 2008. Hlynur gaf út tímaritið Blatt Blað 1994-2016.

Sýningin stendur yfir til 28. september og er opið miðvikudag til föstudags milli 12-17 og laugardaga frá 12-16 og einnig eftir samkomulagi.


Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page