Hljóðróf, ný innsetning eftir Sigurð Guðjónsson.
fimmtudagur, 5. september 2024
Hljóðróf, ný innsetning eftir Sigurð Guðjónsson.
Opnun í Listasafni Árnesinga í Hveragerði 14.09 klukkan 15:00
Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Hann hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2018 fyrir sýninguna Innljós á vegum Listasafns ASÍ.
Við fáumst við spurningar um hvað það er sem er sýnilegt, eða skynjanlegt sem hluta af því hvernig við tökum þátt í heiminum, hvernig við bregðumst við umhverfi okkar og hvaða gildi við gefum ólíkum þáttum í þeirri mynd sem við gerum okkur af heiminum. Sigurður Guðjónsson hefur í mörgum verka sinna búið til aðstæður þar sem áhorfandinn fær tækifæri til að nálgast þessar spurningar á nýjan hátt, fær að draga í efa hvernig veruleikinn birtist okkur og veruleika þess sem við skynjum. Heimar sem áður voru okkur huldir eru gerðir sýnilegir, og þau lögmál sem ráða birtingarmynd hlutanna eru dregin í efa, eða sett fram á nýjan hátt, sem krefst nýrrar túlkunar. Í Hljóðróf er varpað fram spurningum um yfirborð og mynd, um hlut, efni, hreyfingu og skynjun. Þetta er gert með því að bjóða áhorfandanum inn í fagurfræðilega upplifun sem virkjar ólík skilningarvit og sjónarhorn.
Myndin í verkinu er ekki stöðug heldur er hún tímabundið ferli með endurtekningum og uppbyggingu rétt eins og tungumál. Fagurfræði myndarinnar fellst þannig í uppbyggingu hennar og tíma en einnig í sambandi hennar við hlutinn, sambandi við yfirborð, og í því verður til tækifæri til upplifunar sem er bæði af því sem við þekkjum og um leið tækifæri til að efast, til að finna fyrir annmörkum á þekkingu okkar, rétt eins og þegar við heyrum sjaldgæft orð, eða jafnvel orð úr ókunnu tungumáli. Þetta er bæði algjörlega hversdagslegt og framandi.
Í Hljóðróf ganga hljóð og ljós myndarinnar í samband við efni hlutheimsins og efniskennd verksins er bæði raunveruleg og byggir á framsetningu eða jafnvel blekkingu. Hljóð er hér bæði hlutur sem getur færst til í tíma, óbreyttur og atburður sem ekki verður verður endurtekinn; einstakt brot í tíma sem aðeins getur átt sér stað einu sinni og er bundið við efnislegar eigindir og hlustir hvers og eins. Atburður sem getur átt sér stað aftur og aftur og verið settur fram í nýju og nýju samhengi. Hluturinn sem liggur fyrir fótum okkar tekur á sig líf í sama tvíræða rými skynjunar og hugsunar. Taktur eða púls leiðir okkur áfram í sameiginlegri skynjun sjónar og heyrnar.
www.listasafnarnesinga.is