top of page

Hjörtur Matthías Skúlason / Gras – Any of Many

508A4884.JPG

fimmtudagur, 4. september 2025

Hjörtur Matthías Skúlason / Gras – Any of Many

Fimmtudaginn 4. september kl. 16 opnar sýning Hjartar Matthíasar Skúlasonar Gras – Any of Many í Gallerí Úthverfu. Listamaðurinn verður viðstaddur opnunina og boðið verður uppá léttar veitingar og spjall.

Sýningin Gras - Any of Many býður gestum að kanna þemu sem varpa ljósi á tilveru grasstráa. Hjörtur dregur fram á óhefðbundin hátt myndir af stráum við mismunandi birtuskilyrði og sýnir þau í nýju og einstöku ljósi.

Í huga Hjartar lýsir hver mynd ákveðinni stemningu og stund í tilvist stráa með skírskotun til manneskjunnar. Til að mynda eru strá sem bærast í vindi og teygja sig til himins, hópur fólks með hendur á lofti að fagna. Mörg grasstrá saman - en samt í sundur.

Stráin í verkum Hjartar eru hógvær, næm og brothætt en samt sterk og lifandi. Áreynslulaus áferð og litasamsetning verkanna er afrakstur margra ára æfinga og stúdíu en Hjörtur hélt fyrstu málverkasýningu sína aðeins sautján ára gamall.

Hjörtur ólst upp við það að aðstoða foreldra sína, unga bændur á Vestfjörðum, að búa til ný tún í óspilltri náttúru. Blóðbergið var rifið upp með rótum til að sá nýjum fræjum - grasfræjum sem áttu að mynda tún - en kannski áttu þau heima annars staðar.

Viðfangsefnið endurtekur sig en litasamsetning og áferð breytist. Verk sýningarinnar eru sett upp á þann hátt að þau fljóta saman í eina heild – og mynda samfellu líkt og á filmu - ef áhorfandinn pírir augun kemur hreyfing á myndirnar og litirnir renna saman.


Sýningarstjóri er Hrafnhildur Gissurardóttir.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page