top of page

Hillebrandshúsið, Blönduósi: FLÓI - Finnbogi Pétursson

508A4884.JPG

þriðjudagur, 5. júlí 2022

Hillebrandshúsið, Blönduósi: FLÓI - Finnbogi Pétursson

Laugardaginn 2. júlí klukkan 16:00 opnar Finnbogi Pétursson myndlistarmaður sýningu í Hillebrandshúsinu í gamla bænum á Blönduósi. Um er að ræða nýtt verk eftir listamanninn sem fengið hefur nafnið FLÓI. Í texta með sýningunni skrifar Áslaug Thorlacius sýningarstjóri; Verkið Flói … á sér fyrirrennara í mörgum, ef ekki hreinlega öllum fyrri verkum Finnboga en bylgjur af ýmsum gerðum og stærðum eru eitt af hans aðalviðfangsefnum, s.s. ljós, hljóð, rafbylgjur, útvarpsbylgjur, skjálftabylgjur eða bylgjur í vatni. Hér fáum við að upplifa á eigin skinni sjávarföllin þar sem Húnaflóinn og Blanda mætast og það vita allir sem til þekkja að þar eru engir smákraftar á ferð. Tæknin er til staðar, stríðin og viðkvæm. Stór hluti búnaðarins er um borð í fleka, ofurseldur valdi úthafsöldunnar sem rís og hnígur hér utan við ósinn. Upplifunin inni í sjálfri innsetningunni er fyrst og fremst sjónræn en hún kallar fram sterka líkamlega tilfinningu fyrir jafnvægisleysi, mögulega flökurleika. Flekinn sjálfur hefur sem tákn margvíslega merkingu. Ekki síst hefur hann sterkar skírskotanir í samtímanum þegar daglega berast fréttir af fólki sem leggur líf og limi í hættu við að fleyta sér milli heimsálfa í einföldum bátkænum með þá von í brjósti að öðlast hamingju og betra líf.

Finnbogi Pétursson er fæddur árið 1959. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands í Reykjavík og Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi. Verk eftir hann er að finna í opinberum söfnum og einkasöfnum víða um heim. Hann hefur haldið fjölda sýninga heima og erlendis. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001.Sýningin verður opina daglega frá 13 - 18 alla daga vikunar og stendur til 14. ágúst.


Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page