top of page

Hildur Henrýsdóttir opnar sýningu í Gallerí Undirgöng

508A4884.JPG

miðvikudagur, 28. maí 2025

Hildur Henrýsdóttir opnar sýningu í Gallerí Undirgöng

Laugardaginn 31. maí klukkan 17:00 opnar Hildur Henrýsdóttir sýninguna "Endalaus endurkoma hins sama" í Gallerí Undirgöng - Hverfisgötu 76.

Hildur hefur skapað staðbundið verk sem er sérstaklega unnið fyrir sýningarrýmið. Hún málar málverk á loft og veggi gallerísins og skapar þannig óvæntan heim þar sem furðuverur sem eru að hálfu leyti mennskar og að hálfu leyti af óræðum uppruna ráða ríkjum. Verk Hildar spretta iðulega úr umbúðalausri sjálfsskoðun þar sem sálarlíf hennar framkallast á myndfletinum í samtali við annmarka sjálfsins og þær áskoranir sem mæta því. Rýmið í undirgöngunum verður að táknmynd fyrir undirmeðvitundina þar sem Hildur skapar furðuverur innra sálarlífs - til að mynda urrandi hálfmennskar köngulóarkonur, varnarlausar klessuverur og aðrar skepnur sem bjóða áhorfandanum að gægjast inn að innsta kjarna mannlegrar tilveru.

Hildur Henrýsdóttir (f.1987) ólst upp á Þórshöfn á Langanesi. Hún útskrifaðist me BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2016 og með BA gráðu í Nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri. Þverfagleg listsköpun Hildar spannar málverk, skúlptúr og gjörningalist. Verk Hildar hafa verið sýnt víða, meðal annars í Hafnarborg, Gerðasafni, Listasafni Akureyrar, Listasafni Reykjanesbæjar og á sýningum í Berlín, London og Antwerpen.

Í verkum sínum birtir Hildur einlæga sýn inn í mannlegan reynsluheim. Hún afbyggir hugmyndir um fullkomnun og rannsakar persónuleg tengsl sem myndast á milli fólks bæði líkamleg og tilfinningaleg. Verk hennar fjalla á beinskeyttan hátt um persónuleg málefni, eru laus við tabú og hampa ófullkomnun. Á þann hátt máir hún út mörkin á milli þess sem er almennt talið persónulegt og þess sem er samfélagslega viðurkennt.

Sýningin stendur til 3. ágúst og er opin alla daga, allan sólarhringinn.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page