Hildigunnur Birgisdóttir: Innilegar hamingjuóskir með afmælisdaginn

fimmtudagur, 20. júní 2024
Hildigunnur Birgisdóttir: Innilegar hamingjuóskir með afmælisdaginn
Sýning Hildigunnar Birgisdóttur, Innilegar hamingjuóskir með afmælið, opnar í Mokka kaffi á Skólavörðustíg í dag kl. 16-18 og stendur til 14. ágúst. Á sýningunni verða ný og örlítil vatnslitaverk.
Hildigunnur er þekkt fyrir blæbrigðaríka listsköpun sem lítur gagnrýnum augum á hnattræn framleiðslu- og útflutningskerfi og á undarlegt lífshlaup varanna sem þau geta af sér. Í verkum sínum dregur Hildigunnur athygli að hinu smáa, einnota hlutunum sem gjarnan eru fjöldaframleiddir fylgihlutir neyslumenningar: umbúðum, verðmiðum, merkingum og upplýsingakerfum. Hún gefur þessum hlutum ný hlutverk, umbreytir virði þeirra og merkingu algerlega þannig að hægt sé að upplifa þá aftengda uppruna sínum. Um efnistök sín segir Hildigunnur: „Óheppilegar afurðir neysluhyggju eru efniviðurinn og manngerð kerfi eru áhöldin.”
Hildigunnur Birgisdóttir (f. 1980) býr og starfar í Reykjavík. Hildigunnur hefur sýnt víða en hún er núverandi fulltrúi Íslands á Feneyjartvíræingnum, 2024. Verk hennar hafa einnig verið sýnd í Listasafni Reykjavíkur; listasafninu GES-2, sem rekið er af V-A-C Foundation í Moskvu og H2H í Aþenu. Verk hennar má meðal annars finna í safneign Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003.


