Helga Sif Guðmundsdóttir: TIF

fimmtudagur, 27. nóvember 2025
Helga Sif Guðmundsdóttir: TIF
Þann 27. nóvember opnar Helga Sif Guðmundsdóttir einkasýningu sína „TIF“.
Kveikjan var að fylla rýmið litum. Strigaveggir Mokka urðu innblástur að verkunum, þar sem litríkum nælonþráðum og perlugarni er strengt endurtekið á litfilmur. Verkin eru efnis- og litastúdíur þar sem sjónræn áhrif eru rannsökuð.
Titill sýningarinnar „TIF“ vísar til innri púls verkanna sem framkallast af upplifun áhorfandans, flökt augans á milli lita, áferðar og efnis. Flökt á milli heildarupplifunar og greiningar smáatriða – ljóðrænu og raunveruleika.
Helga Sif Guðmundsdóttir útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist frá LHÍ vorið 2005 og með MFA-gráðu frá Konstfack listaakademíunni í Stokkhólmi vorið 2009.
Myndlist hennar einkennist af þríðvíðum verkum ásamt lágmyndum þar sem innblástur er fengin úr efnisrannsóknum á óhefðbundnum efnum sem eiga sér m.a. rætur í ólíkan iðnað, fjöldaframleiðslu og textíl. Upphafspunkturinn ræðst út frá eðli efnisins og frá þeim punkti mótast niðurstaðan.
Sýningin er sölusýning og þeir sem hafa áhuga á að eignast verk af sýningunni, geta fengið upplýsingar hjá starfsfólki Mokka eða hjá Helgu Sif í síma 778 5850 eða á netföngin: helgasif@gmail.com og art@mokka.is


