Helga Páley Friðþjófsdóttir: Í hringiðu alls

fimmtudagur, 6. nóvember 2025
Helga Páley Friðþjófsdóttir: Í hringiðu alls
Einkasýning Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur, Í hringiðu alls / Within It All, opnar í Þulu, Marshallhúsinu, laugardaginn 8. nóvember á milli 17 - 19. Sýningin stendur til 21. desember.
⸻
Við erum í studíóinu hennar Helgu og við tölum saman. Hún segir mér frá hringjunum, litunum, litlu verkunum, stóru verkunum, íbúðum; hún talar um leiki, hvernig það eru haustlitir í verkunum, birtuna, hvernig allt í einu er hægt að sjá inn í framtíðina þegar málverkið—það sem þarf að gera við málverkið—sýnir sig.
Helga talar þannig um málverkið að það geti kveikt á hendinni, heilanum, líkamanum á hátt sem er andstæða við það hvernig heimurinn er oftast—þar sem er slökkt á einhverju. Helga segist samt ekki vera málari per se. Hún er teiknari. Hún nefnir Amy Sillman sem er líka málari sem er teiknari. Í bókinni sinni Faux pas skrifar Amy um að það sé munur á milli málara sem eru „málarar“ og sem eru „teiknarar“ (e. drawers). „Málarar“ eru eins og ernir: víðsýnir, sjá hlutina hátt að ofan, reikna hluti út, hafa oft hugmynd (eða konsept) til staðar áður en byrjað er að mála. (Ef við lesum listasöguna þá tekur örninn þar mikið pláss.)
Teiknari er hinsvegar eins og bjór sem býr til stíflu. Sem er niðri í gróðrinum, rótinni, moldinni, að naga og toga og bera og strita eftir einhverri meira eða minna eðlislægri hvöt. Bjórinn byggir upp smátt og smátt, spýtu fyrir spýtu, eins og teiknarinn byggir upp línu fyrir línu, lit fyrir lit þangað til eitthvað er búið til, orðið til; byggt upp úr mörgu litlu, mörgum ákvörðunum sem voru teknar í augnablikinu með höndunum og líkamanum.
Ef við förum bara aðeins lengra þá getum við nefnt Phillip G. Pavia myndhöggvara frá Bandaríkjunum sem skrifaði mikið og sinnti ritstjórnarstörfum líka. 1958 lýsti Pavia einhverju sem hann kallaði Vandamálið (e. The Problem). Eitthvað sem snýst ekki bara um línur og lögun og liti og efni og samsetningu forma heldur um það hvernig studíóið er staður þar sem átök eiga sér stað (e. a total struggle) þar sem verið er að glíma við spurningar um tilvist okkar: Hvað erum við að gera hérna? Afhverju? Hvernig? Það er svo sem ekkert nýtt, studíóið hefur lengi verið staður fyrir uppgjör og strit, en það sem er áhugavert fyrir okkur hér er að samkvæmt Pavia er svarið við Vandamálinu að teikna. Ekki „bara“ að teikna með blýanti á blað, lita eða krota, heldur hvað það er sem við gerum þegar við teiknum, aðferðin. Að teikna er að skoða, lýsa, pensla, taka í sundur, þekja, skorða sig af, finna eitthvað, finna liti og línur og form, sjá framtíðina; að teikna er að takast efnislega á við heiminn. Að teikna setur þig í ákveðnar stellingar, gefur þér ákveðið viðhorf. Maður getur verið að teikna þegar maður er að mála eða leira eða elda eða senda tölvupóst. Teikningin er blaðið svo striginn og svo rýmið og svo vinnustofan og svo lífið. Teikningin er byrjunin og grunnurinn. Hringir, punktar, blettir. Pavia notaði orðið freshness—að teikna er að gera eitthvað ferskt, frískandi, að teikna er eins og ferskt loft.
Í öðrum orðum, teikning kemur á óvart, teikning er aldrei kláruð, hún er óendanleg og hringlaga. Einhverskonar hringsólandi gjörð sem breytist daglega. Eins og við öll. Þannig segir Helga Páley mér að hún sé teiknari, málari sem er teiknari. Og svarið við vandamálinu er alltaf að halda áfram að teikna.
Texti eftir Starkað Sigurðarson.
⸻
Helga Páley Friðþjófsdóttir (f. 1987) lauk BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og starfar sem myndlistarkona í Reykjavík. Síðan hún útskrifaðist hefur hún haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði á Íslandi og erlendis.
Málverkið hefur lengi verið kjarninn í listrænni nálgun hennar, þar sem form, litur og áferð taka á sig mynd í gegnum innsæi og endurtekningu. Hún leyfir hugmyndum að þróast smám saman, leggur lit á striga í lögum og lætur myndirnar birtast með tímanum. Í gegnum þetta ferli verða sögur til, byggðar upp, skrapaðar burt og endurunnar þar til þær setjast að á striganum.
Nýlegar einkasýningar hennar eru Í fullri fjöru í Listasafninu á Akureyri (2025), Flauelstjald hjá Listval (2024) og Húsvörður slær í gegn í Þulu (2021). Samsýningar eru meðal annars List er okkar eina von! í Listasafni Reykjavíkur (2025), Einhver málverk í Nýlistasafninu (2024) og Summer Salon í Alice Folker Gallery, Kaupmannahöfn (2024). Helga Páley tók þátt í listamessunni CHART í Kaupmannahöfn árið 2025. Verk hennar hafa einnig verið sýnd í Berlín, Basel, Helsinki og Stokkhólmi.
Hún hefur tekið þátt í vinnustofudvölum og listamannareknum verkefnum, meðal annars í TAXI Residency í Denver (2019), í galleríinu Kunstschlager (2013–15), og sat í stjórn Sequences - Real Time Art Festival (2016–17).


