top of page

Harmljóð um hest sýning Hlyns Pálmasonar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

508A4884.JPG

fimmtudagur, 23. maí 2024

Harmljóð um hest sýning Hlyns Pálmasonar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur

Sýningin „Harmljóð um hest“ eftir Hlyn Pálmason, myndlistar- og kvikmyndagerðarmann opnar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur laugardaginn 25. maí kl. 15. Ljósmyndaserían varpar sjónrænu og grafísku ljósi á rotnunarferli hests í náttúru Íslands.

Harmljóð um hest er að sögn Hlyns sjónrænn sorgarsálmur, eins konar virðingarvottur til íslenska hestsins sem spilað hefur veigamikið hlutverk í mótun og sögu Íslands allt frá landnámsöld. Verkið er að sama skapi hugleiðing Hlyns um hið mannlega og hið náttúrulega, hvernig ólík blæbrigði veðráttu og tilfinninga birtast og breytast frá einni árstíð til annarrar, og andstæðir pólar eins og birta og myrkur, mýkt og harðneskja, fegurð og ljótleiki móta bæði náttúru og einstaklinga.

Sýningin var sett upp í Svavarssafni á Höfn í Hornafirði árið 2022 í sýningarstjórn Ástríðar Magnúsdóttur sem er höfundur texta.

Þetta er önnur sýning Hlyns í Ljósmyndasafni Reykjavíkur en sýning hans Hvítblinda var sett upp í Skotinu árið 2011.

Hlynur Pálmason er fæddur í Reykjavík árið 1984 en ólst upp á Höfn í Hornafirði. Hann lagði stund á ljósmyndun og kvikmyndagerð í Kaupmannahöfn og bjó þar í tólf ár. Hann flutti ásamt fjölskyldu sinni aftur til Hafnar árið 2018 og vinnur þar að skapandi verkefnum innan myndlistar og kvikmyndagerðar. Hann hefur hlotið viðurkenningar hérlendis og erlendis fyrir kvikmyndir sínar: Vetrarbræður (2017) og Hvítur, hvítur dagur (2019) og Volaða land (2022).

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page