top of page

Haraldur Jónsson opnar í Kompunni & sunnudagskaffi

508A4884.JPG

miðvikudagur, 31. maí 2023

Haraldur Jónsson opnar í Kompunni & sunnudagskaffi

Um helgina eru tveir viðburðir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Annars vegar er það sýningaropnun Haraldar Jónssonar í Kompunni á Laugardag kl. 14.00 og hinsvegar Sunnudagskaffi með skapandi fólki kl. 15.00 þar sem Þórir Hermann Óskarsson mun spjalla um tónlist og leika á píanó.

Laugardaginn 3. júní kl 14 opnar sýningin Var í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði með nýjum verkum Haraldar Jónssonar. Verkin eru unnin í ólíka miðla og virkja staðhætti á ýmsa lund; bæði Kompuna sjálfa og útisvæðið umhverfis Alþýðuhúsið. Á opnuninni verður athöfn þar sem gestum gefst kostur á að opna brjóstvasann og mynda jarðsamband. Verksummerkin verða órjúfanlegur þáttur í vistkerfi og anda staðarins.

Sýningin stendur til 18. júní og er opin daglega frá kl. 14.00 - 17.00.

Haraldur Jónsson vinnur jöfnum höndum í ýmsa miðla. Verk hans hafa ávallt sterka vísun í nánasta umhverfi okkar með marglaga og leikandi tengingum við líkamann, skynjunina, tilfinningar, tungumálið og því sem myndast í bilunum þar á milli. Haustið 2018 var yfirlitssýningin Róf opnuð á Kjarvalsstöðum með verkum frá þrjátíu ára ferli hans og sumarið 2019 var hann tilnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur. Í maí opnaði einkasýning hans Enjeux í Appart_323 í París og mun hún standa til hausts. Sýningin Var í Kompunni gefur góða mynd af höfundarverki hans.

Sunnudagskaffi með skapandi fólki 4. júní 2023
Þórir Hermann Óskarsson.

Þórir mun spjalla um sögu, eðli og tónsmíða-aðferðir prelúdíunnar. Einnig mun hann leika nokkrar nýjar frumsamdar prelúdíur úr prelúdíusafninu "24 Discontinued preludes", og aðrar vel valdar eftir önnur tónskáld.

Þórir Hermann Óskarsson (f. 1994) er klassískur píanóleikari og stundaði tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands. Þórir lærði píanó-, gítar- og klarínettuleik frá unga aldri í Englandi, en seinna fluttist hann til Íslands og útskrifaðist með burtfararpróf í klassískum píanóleik og tónsmíðum frá FÍH og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Þrátt fyrir klassíska menntun Þóris sækir hann innblástur úr öllum mögulegum stefnum og stílum. Þórir hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum ásamt því að semja og flytja eigin verk fyrir lúðrasveitir, kóra, strengi og píanó auk fjölda útsetninga. Meðfram tónlistinni unir Þórir sér vel við garðyrkju, skúlptúr, teikningu, ritlist og bókagerð og beitir sér fyrir verndun dýra og bættu loftslagi.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page