top of page

Handhafar Íslensku myndlistarverðlaunanna 2023

508A4884.JPG

fimmtudagur, 23. mars 2023

Handhafar Íslensku myndlistarverðlaunanna 2023

Afhending Íslensku myndlistarverðlaunanna fór fram í sjötta skipti fimmtudaginn 16. mars við hátíðlega athöfn í Iðnó.

Aðalverðlaunin féllu í skaut Hrafnkels Sigurðssonar
fyrir sýninguna Upplausn í Auglýsingahléi Billboard,
í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Y gallerí

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Verkin afhjúpa ýmislegt um skynjun okkar og skilning. Ef við skoðum eitthvað sem er langt í burtu erum við í raun að gægjast aftur í tímann: það sem er milljón ljósár í burtu birtist okkur núna eins og það var fyrir milljón árum. Ef við skoðum jörðina úr geimfari sjáum við bara stóru drættina, höf og landmassa, en ef við skoðum efnisheiminn of grannt leysist hann upp, eins og Hrafnkell sýndi okkur í verki frá 2014 þar sem hann beindi rafeindasmásjá að steinsteypu sem reynist þá alls ekki eins fast efni og við héldum.

Það er mat dómnefndar að með því að nýta auglýsingaskiltin hafa Hrafnkell og fleiri opnað nýja leið til að miðla myndlist en Hrafnkell sýni líka að skiltin eru ekki bara eins og fletir til að fylla út í, heldur er hægt að nýta þau sem miðil með öllu sem tæknin býður upp á og koma skilaboðunum úr sýningarsalnum út í hversdagslegan veruleika okkar þar sem við þurfum mest á þeim að halda.
Nánar
Ljósmynd: Helena Aðalsteinsdóttir
Hvatningarverðlaunin hlaut Ásgerður Birna Björnsdóttir
fyrir sýninguna Snertitaug í Listasafni Reykjavíkur- Hafnarhúsi
Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Að mati dómnefndar var sýningin áhrifamikil og virkni tækjanna og starfsemi lífveranna, sem á sér stað að stórum hluta handan beinnar skynjunar mannsins, beindi sjónum að grunneigindum lífs og vaxtar á jörðinni og oft á tíðum klunnalegra aðferða mannsins til þess að virkja þessa orku og stýra henni.

Heiðursviðurkenning myndlistaráðs var veitt í þriðja sinn og var það listakonan Ragnheiður Jónsdóttir sem hlaut hana fyrir einstakt framlag sitt til íslenskrar myndlistar

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

Það er vegna margháttaðs framlags Ragnheiðar til íslensks myndlistarvettvangs sem þessi verðlaun eru veitt. Hún hefur hafið veg teikningar og svartlistar í íslenskri myndlist til vegs og virðingar. Margþættur og fjölbreyttur myndheimur svartlistarverka hennar er einstakur, hvernig hún byggir upp kvenlæga sýn og töfraraunsæi á grunni teikningar og prentlistar. Á seinni árum hefur hún tekið teikninguna föstum tökum í stórbrotnum myndverkum þar sem náttúrusýnin er tjáð í reynd, í sterkri nánd og mikilvirkri áferðarteikningu. Það er á þessum fjölbreytta grunni sem myndlistarráð hefur ákveðið að heiðra Ragnheiði Jónsdóttur fyrir lífsstarf hennar í þágu íslenskrar myndlistar og menningar.

Ónefnd V
1978
Grafík æting
Myndlistarráð veitti auk þess þrjár viðurkenningar

Viðurkenningu fyrir
útgefið efni fengu
Æsa Sigurjónsdóttir &
Snæbjörnsdóttir/Wilson
fyrir bókina
Óræð lönd: samtöl í sameiginlegum víddum.
Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

Bókin vekur eftirtekt fyrir heildstæða og einstaklega vandaða framsetningu á innihaldsríku efni sem veitir einstaka innsýn í listhugsun Bryndísar og Marks en þau hafa verið í hópi leiðandi listamanna á sviði listrannsókna undanfarna tvo áratugi. Ritið Óræð lönd er samstarfsverkefni, gefið út í tengslum við tvær sýningar sem haldnar voru samtímis í Gerðarsafni í Kópavogi og á Listasafninu á Akureyri haustið 2021.

Viðurkenningu fyrir áhugaverðasta
endurlitið hlaut
Listasafn Reykjavíkur
fyrir sýninguna
Erró: Sprengikraftur mynda
í sýningarstjórn
Danielle Kvaran og Gunnars B. Kvaran.
Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

Sýningin veitti heildstætt og greinargott yfirlit um feril Errós allt frá því er hann hóf að marka sér sérstöðu í evrópskum listheimi á sjötta áratugnum, þar sem hann lét fljótlega að sér kveða á vettvangi framúrstefnu með tilraunum sínum með ný tjáningarform, fram til þess tíma er hann mótaði og þróaði þann frásagnakennda og margbrotna myndheim sem hann hefur löngum verið þekktastur fyrir.

Um sýningarhönnun sá Axel Hallkell Jóhannesson.

Viðurkenning fyrir áhugaverðustu samsýninguna
féll í skaut Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík
fyrir sýninguna
Hjólið V: Allt í góðu
í sýningarstjórn
Kristínar Dagmarar Jóhannesdóttur.
Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:
Sýningin náði yfir stórt svæði, frá sjávarsíðunni Sæbrautarmegin yfir á göngustíginn við Ægisíðuna, og fylgdi óhefðbundinni gönguleið á milli hverfa. Mikil breidd var í verkunum sem opnuðu á margþætta skoðun á borgarlandslaginu og gáfu tækifæri til að upplifa kunnuglegt umhverfi á nýjan hátt, kynnast verkum einkar fjölbreytts listafólks og velta fyrir sér tíma og rými borgarinnar á eigin forsendum. Flest verkanna voru áþreifanlegar höggmyndir en nokkur höfðu viðbótarveruleika á stafrænu formi sem skoða mátti í snjallsíma.

Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2023 skipa:

Ásdís Spanó, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)
Jón Proppé (fulltrúi safnstjóra íslenskra safna)
Sigrún Hrólfsdóttir (Samband íslenskra myndlistarmanna)
Halldór Björn Runólfsson (Listfræðafélag Íslands)
Unnar Örn (Listaháskóli Íslands)

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page