top of page

Hafnarborg: Í undirdjúpum eigin vitundar og What´s up, Ave Maria

508A4884.JPG

þriðjudagur, 17. maí 2022

Hafnarborg: Í undirdjúpum eigin vitundar og What´s up, Ave Maria

Hafnarborg býður gesti hjartanlega velkomna á opnun tveggja nýrra sýninga laugardaginn 21. maí kl. 14.

Annars vegar er það yfirlitssýningin Í undirdjúpum eigin vitundar í aðalsal safnsins, þar sem sjá má verk listamannsins Gunnars Arnar Gunnarssonar (1946-2008). Í Sverrissal er það svo sýningin What’s Up, Ave Maria?, þar sem myndlistarmaðurinn Sigurður Ámundason sýnir ný og nýleg verk.

Á sýningunni Í undirdjúpum eigin vitundar verða sýnd verk frá öllum ferli Gunnars Arnar Gunnarssonar, sem spannar tæplega fjörtíu ár, en á þeim tíma gekk hann í gegnum nokkrar umbreytingar og stokkaði reglulega upp viðfangsefni sín. Gunnar Örn var gríðarlega afkastamikill listamaður og eftir hann liggur mikill fjöldi verka: teikningar, einþrykk, málverk og skúlptúrar, vatnslitaverk auk verka sem unnin eru með blandaðri tækni. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.

Gunnar Örn Gunnarsson lærði á selló í Kaupmannahöfn veturinn 1963-64 og sótti einnig teikninámskeið hjá Svend Nielsen í Danmörku en var að öðru leiti sjálfmenntaður í myndlist. Gunnar Örn var virkur í sýningarhaldi hér á landi, auk þess sem verk hans voru meðal annars sýnd í Danmörku, Tókýó, Búdapest og í galleríi Achims Moeller í New York. Gunnar Örn var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1988. Verk eftir listamanninn eru í eigu fjölmargra safna á Íslandi en einnig má finna verk hans í Guggenheim-safninu í New York, samtímalistasafninu Sezon (Seibu) í Tókýó, auk Moderna-safnsins og Listasafns Svíþjóðar í Stokkhólmi.

Á sýningu Sigurðar Ámundasonar, What’s Up, Ave Maria?, sýnir listamaðurinn verk, teikningar og vídeó, sem takast á við tákn, teikn, merki eða lógó. Slík merki hafa vægi í samfélaginu, jafnvel vald – táknmyndir sem við túlkum, sem segja okkur eitthvað, upplýsa okkur eða koma ákveðnum skilaboðum á framfæri. En hvað gerist hins vegar ef merkið sem við sjáum virðist ekki merkja neitt ákveðið? Ef merkið lítur út eins og merki, notar tungumál merkisins, en bendir ekki á neitt?

Sigurður Ámundason útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2012. Sigurður hefur haldið þrettán einkasýningar, meðal annars í Kling & Bang, Kunstschlager, Húsinu á Patreksfirði, Open, Ekkisens og Úthverfu. Hann hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga, til dæmis á Kjarvalsstöðum, í Hverfisgallerí, Glettu á Borgarfirði eystra, Harbinger, Salts í Basel, Sviss, og CHART Emerging í Kaupmannahöfn. Hann hefur kennt í Myndlistaskólanum í Reykjavík og við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Árið 2020 hlaut hann tilnefningu til hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna. Sigðurður býr og starfar í Reykjavík.

Við opnunina mun Snæbjörg Guðmunda Gunnarsdóttir, sópran, flytja aríu úr óperu Puccini, La rondine, við undirleik Þóru Gunnarsdóttur á píanó. Boðið verður upp á léttar veitingar. Aðgangur er ókeypis, eins og alltaf í Hafnarborg.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page