top of page

Höggmynd verður til á Urðartorgi í sumar

508A4884.JPG

föstudagur, 20. júní 2025

Höggmynd verður til á Urðartorgi í sumar

Myndhöggvarinn Matthías Rúnar Sigurðsson mun í sumar vinna að nýrri höggmynd sem prýða mun Urðartorg í Úlfarsárdal.

Íbúar og gestir hverfisins fá tækifæri til að fylgjast með listamanninum skapa verk sem setja mun svip á hverfið í framtíðinni.Matthías er þekkur fyrir einstakar höggmyndir sem sækja í undraheim sagna og oft goðfræðilegra minna. Það verður spennandi að sjá hvaða undraveröld eða verur hann heggur úr grágrýtishnullungi sem kominn er á Urðartog.

Urðartogi er ætlað að vera viðkomustaður í hverfi sem er að mótast í næsta nágrenni við náttúru og útivistarsvæði í Úlfarsárdal. Verkið er hluti af mótun hins nýja hverfis og er liður í því að efla menningu og list í opinberu rými borgarinnar.

,,Torgið heitir Urðartorg og því liggur kannski við að horfa til Urðar – örlagadísar sem stendur fyrir núið í Urður, Verðandi og Skuld en svo má líka sjá fyrir sér urðarkött, það verður spennandi fyrir fólk að sjá hvað býr í grjótinu“ segir Matthías um verkefnið.

Matthías mun vinna verkið á staðnum í sumar - verður með viðveru á torginu einhverja daga vikunnar, sem gefur vegfarendum og íbúum hverfisins tækifæri til að fylgjast með ferlinu, kynnast listamanninum og sjá hvernig höggmyndin þróast í rauntíma.

,,Það er einstakt tækifæri að fá listamann til að vinna að verki sínu fyrir opnum tjöldum og vonandi að íbúar nýti tækifærið og kynnist ekki bara verkinu heldur líka höfundinum og hugmyndunum sem liggja að baki verkinu“ segir Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur.

Verkefnið er í umsjón Listasafns Reykjavíkur sem sér um útilistaverk Reykjavíkurborgar og samræmist stefnu Reykjavíkurborgar um að gera list að aðgengilegum hluta af daglegu lífi borgarbúa.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page