Gunnhildur Ólafsdóttir: Tímamót

fimmtudagur, 31. október 2024
Gunnhildur Ólafsdóttir: Tímamót
Verið velkomin á opnun sýningar Gunnhildar Ólafsdóttur GÓLU, Tímamót, föstudaginn 1. nóvember kl 17-20 í Grafíksalnum, Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17 (hafnarmegin). Sýningin stendur til 10. nóv og verður opið fimmtudaga til sunnudaga kl 14-18.
Verkin eru aðallega unnin sl. 3 ár en nokkur eldri fá að fylgja með á þessum tímamótum. Þau eru unnin með mismunandi aðferðum grafíkþrykks eins og tréristum, ætingu, mezzotint, sólarþrykki, lithografíu og frjálsu handþrykki. Myndefnið er náttúran mikil eða minni í sveit og borg sem kallar á mismunandi tilraunir grafíktækninnar.
Með aldrinum hefur Gunnhildur nálgast myndefni og tækni með meira frelsi en áður, fer frjálslegar með og jafnvel verður persónulegri nálgun fyrir bragðið. Hugmyndir spretta gjarnan upp í náttúrunni eða á göngu um „göturnar hennar“ í Reykjavík og seinna meir víðar. Í vinnuferlinu koma nýjar hugmyndir til hennar gjarnan eins og elding og sumar hverfa jafnskjótt aftur. Þær nýtast þó stundum vel ef þær geymast í minninu og þá aðallega núna í brunnloka-myndunum.