Guðmundur Thoroddsen - Skriður - í Þulu
fimmtudagur, 4. apríl 2024
Guðmundur Thoroddsen - Skriður - í Þulu
Einkasýning Guðmundar Thoroddsen, sem ber titilinn Skriður, opnar næstkomandi laugardag, 6.apríl klukkan 17:00 í Þulu galleríi í Marshallhúsinu. Sýningin stendur til 19.maí.
Hér á landi bera margir staðir nafnið Skriða, enda lýsir orðið algengu fyrirbæri í landslaginu; skriðufall verður þegar aur og grjót rennur úr fjallshlíð niður á láglendi. Skriða er ógreinilegt form, fyrirbæri þar sem hlutir eru á hreyfingu eða á leiðinni eitthvað annað. Oftast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og því eins gott að vera ekki að þvælast fyrir. Á síðustu árum hafa skriður aukist og eru í hugum margra ógnvænleg náttúruvá. Skrið á einmitt við um hreyfingu, en oftast í jákvæðri merkingu: Skrið er framþróun, að komast á skrið. Við byrjum flest á því að skríða, réttum okkur svo af til að ganga upprétt og komast áfram í lífinu. En um leið byrjar óvissan, því hvernig vitum við hvert við eigum að fara?
Á sýningunni SKRIÐUR sýnir Guðmundur Thoroddsen ný málverk frá þessu ári þar sem hann heldur áfram áhugaverðum tilraunum sínum með olíustifti. Málverkin má sjá sem rökrétt framhald af stóru verki sem unnið var með olíustiftunum og sýnt á Chart Art Fair í Kaupmannahöfn árið 2023 og síðar á sýningunni Nokkur nýleg verk – ný aðföng í safneign í Listasafni Íslands 2023/24.
Guðmundur Thoroddsen (f. 1980) útskrifaðist með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 2011. Guðmundur hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og einkasýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Nýlegar einkasýningar eru Kannski, Kannski / Maybe, Maybe, Hverfisgallerí. Reykjavík, Ísland, 2022/23, og Howling Hills, Asya Geisberg Gallery, New York, Bandaríkjunum, 2021. Fjallað hefur verið um verk hans á hinum ýmsu alþjóðlegu miðlum, t.a.m. Artforum, The New York Times, Time Out New York, Twin Magazine og Dazed Digital. Guðmundur hefur hlotið fjölmargra styrki og var hann tilnefndur til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019 fyrir einkasýninguna SNIP SNAP SNUBBUR í Hafnarborg.