Guðbjörg Lind Jónsdóttir: Uppáhelling fyrir sæfarendur opnar í Listasafni Ísafjarðar
fimmtudagur, 25. maí 2023
Guðbjörg Lind Jónsdóttir: Uppáhelling fyrir sæfarendur opnar í Listasafni Ísafjarðar
Listasafn Ísafjarðar býður gesti velkomna á opnun sýningar Guðbjargar Lindar Jónsdóttur, Uppáhelling fyrir sæfarendur. Opnun verður 26. maí nk. kl.16.00 í sal Listasafns Ísafjarðar á annarri hæð í Safnahúsinu Eyrartúni. Boðið verður upp á léttar veitingar.
Á sýningunni Uppáhelling fyrir sæfarendur eru gestir leiddir í ferðalag á vit veraldar þar sem skynja má hið upphafna í einfaldleikanum sjálfum.
Landslagsverk Guðbjargar eru oftar en ekki sprottin úr umhverfi æsku hennar vestur á fjörðum. Þau varpa þó ekki ljósi á ólíka þætti náttúrunnar, heldur fela í sér tilraun til að skapa veröld á mörkum hugar og náttúru, verkin eru því eins konar framlenging á eigin hugarheimi. Viðfangsefnin tengjast ætíð vatni; fyrst fossum og síðar sjávarfletinum þar sem eyjar og bátar fljóta á yfirborðinu eða fjallshlíðar og eyrar teygja sig út á hafflötinn. Þráhyggjukennd áhersla á vatn endurspeglar hrifningu og hræðslu Guðbjargar á hverfulleika þess og gagnsæi.
Guðbjörg Lind Jónsdóttir er fædd á Ísafirði 1961. Hún útskrifaðist frá Málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985. Þremur árum síðar útskrifaðist hún með kennsluréttindi frá sama skóla. Guðbjörg á að baki margar einkasýningar auk þess að hafa tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Guðbjörg býr og starfar að list sinni í Reykjavík og á Þingeyri. Verk hennar eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Ísafjarðar, Listasafns Háskóla Íslands auk margra opinberra stofnana og einkasafna.