Glóandi Gull Myndlistarsýning Önnu Jónu Hauksdóttur
fimmtudagur, 5. september 2024
Glóandi Gull Myndlistarsýning Önnu Jónu Hauksdóttur
Anna Jóna Hauksdóttir heldur sýningu á myndverkum sínum í sýningarsal Borgarbókasafnsins Spönginni. Sýningin, sem ber heitið Glóandi gull, verður opnuð laugardaginn 7. september kl. 14 og stendur til 5. október n.k.
Anna Jóna Hauksdóttir starfaði lengst af sem leikskólakennari og fléttaði gjarnan hvers kyns myndlist og föndri inn í starfið með börnunum.
Form, litir, áferð og jafnvægi í því sem hún sér hefur heillað hana, jafnt innan dyra sem úti í náttúrunni. Eftir að hún fór nýlega á námskeið í málun uppgötvaði hún eiginleika olíulitanna og hvernig ákveðnir töfrar eiga sér stað í meðferð þeirra. Myndlistariðkunin veitir henni mikla gleði og innri ró, vinnan við verkin tekur tíma en sá tími fer líka í að tengjast verkunum og allt gengur upp að lokum.
Gullni liturinn hrífur Önnu Jónu æ meira og hefur hún gaman af að bæta honum inn á verk sín, sem gefur þeim glæsilegan og ævintýralegan blæ.