Gerla: ÞÆR

fimmtudagur, 9. október 2025
Gerla: ÞÆR
ÞÆR
Gerla – Guðrún Erla Geirsdóttir
12. október – 2. nóvember 2025
Glerhúsið, Vesturgötu 33b
Opnun sunnudaginn 12. október kl. 14.00. Léttar veitingar í boði.
Opnunartímar:
fimmtudaga og föstudaga kl. 15–18
laugardaga og sunnudaga kl. 14–18
Í október verður haldin í Glerhúsinu einkasýning Gerlu – Guðrúnar Erlu Geirsdóttur – og sýnir hún þar um 25 ný verk, unnin á árunum 2023–2025. Verkin sækja innblástur í menningararf kvenna á Íslandi um aldamótin 1900 og fram yfir heimsstyrjöldina síðari, sérstaklega í formi listræns útsaums.
Tímasetning sýningarinnar er engin tilviljun. Í október 2025 eru liðin fimmtíu ár frá kvennaverkfallinu, þegar konur um allt land lögðu niður störf til að sýna mikilvægi framlags síns til samfélagsins. Með svipuðum hætti minnir sýningin á að listahandverk og skapandi tjáning eru órjúfanlegur hluti af menningarlegri sjálfsmynd og þroskuðu samfélagi.
Verkin, sem hér eru sýnd í fyrsta sinn, endurspegla handverkshefðir mæðra- og ömmukynslóða listakonunnar – kvenna sem höfðu takmarkaðan aðgang að menntun en lærðu útsaum í kvennaskólum, húsmæðraskólum og á stuttum námskeiðum. Oft voru útsaumuðu verkin einu listmunirnir á heimilum þeirra, minnisvarðar um sköpunarkraft sem blómstraði í kyrrþey innan veggja heimilisins.
Í verkunum mætast líkami, minni og femínísk reynsla – þræðir sem vefjast um jaðarsettar raddir í listasögunni. Sköpunin á sér rætur í líkamanum og tilfinningunni;
textíll, efni og minningar verða að tjáningu persónulegrar og pólitískrar reynslu. Verkin varpa ljósi á arfleifð kvenna sem störfuðu í skugga hefðbundinnar listasögu og sýna fram á mikilvægi þeirrar arfleifðar í samtímanum.
Hér er tekinn upp þráðurinn úr femínískri umræðu áttunda og níunda áratugarins, þegar listakonur kröfðust nýrra starfsskilyrða, sýnileika og viðurkenningar – en sjónum jafnframt beint að því hvernig þessi umræða heldur áfram að þróast og dýpka.
Textílverk Gerlu heiðra konur sem nutu ekki alltaf „réttu“ skilyrðanna til að hasla sér völl í myndlist, en áttu engu að síður stóran þátt í að móta menningararfinn. Í verkunum má greina tilraun til að brúa tímabil, skapa samtal milli kynslóða og endurmeta svokölluð kvennaverk – ekki til að einangra þau, heldur til að sýna hvernig þau hafa lagt grunn að framtíðinni og halda áfram að hafa áhrif.
Í tilefni sýningarinnar gefur listakonan út nýja listabók, þar sem dregið er fram samspil handverks, minna og femínískrar arfleifðar í verkum hennar.
Sýningarstjórn: Becky Forsythe


