Garðatorg: 5. þáttur af 5. Hugleiðingar - Birgir Rafn Friðriksson (BRF)
föstudagur, 18. mars 2022
Garðatorg: 5. þáttur af 5. Hugleiðingar - Birgir Rafn Friðriksson (BRF)
Fimmti þáttur: 1. – 31.mars 2022
Sýningaröð Birgis Rafns Friðrikssonar – BRF á Garðatorgi
5. þáttur af 5. Hugleiðingar
Dúett eða tvísöngur er tónverk fyrir tvo, tónverk þar sem tveir leika. Í tvísöng parast og afparast raddirnar, leita til og frá hvor annarri á víxl, leita takts, samræmis og merkingar. Hér er stillt fram tveimur verkum sem þannig eru látin „syngja“ dúett, látin bindast hvor annarri í sjónrænum kossi, fyrir þig, að upplifa.
Verkin sem eru hér til sýnis eru hugleiðingar um lífið. Verkið Kúreki fjallar um umhverfi manna sem hefur verið snert af tölvuvæðingunni, Excel skipulagningunni, vissum stífleik, sem kalla má ofur-Apollónísk áhrif. Allt virðist orðið svo lógískt og mystíkin er hverfandi í rökrænum útskýringum. Í myndinni er vel falinn kúreki í kubbslegu formi. Hvernig mun þetta umhverfi móta menn og menninguna áfram? Hitt verkið nefnist Rauð áferð og varð til við þær vangaveltur hvað menn skilja eftir sig. Spurningin er hvort mannslífið sé líkara áferð í lit frekar en nokkuð annað. Hvað er það sem einstaklingur skilur eftir sig annað en keim, bragð, lykt eða einfaldlega einhverskonar áferð? Er ekki minning einskonar áferð?
Fimmti þátturinn stendur frá 1. – 31.mars 2022 og er sá 5. og síðasti af 5 þátta sýningarröð BRF sem fram fer á Garðatorgi 1 í Garðabæ veturinn 2021-2022.