top of page

Gallerí Undirgöng: Vellíðan - Edith Hammar

508A4884.JPG

mánudagur, 8. ágúst 2022

Gallerí Undirgöng: Vellíðan - Edith Hammar

Fimmtudaginn 4. ágúst opnar "Vellíðan" sýning Edith Hammar í Gallerí Undirgöng við Hverfisgötu 76 í Reykjavík.
Edith Hammar (f. 1992 í Helsinki) er ungt listkvár sem vakið hefur athygli fyrir stórar og kraftmiklar blekteikningar sem unnar eru ýmist á pappír eða sem veggverk.

Hán teiknar endurtekin myndefni sem eru á margan hátt sjálfsævisöguleg, með áherslu á upplifun og ímynd kynhlutlausra einstaklinga, í félagslífi, í hvíldarstund og að klæða sig í og úr fatnaði í heimilislegu, en þó útópísku, umhverfi.
Stórar teikningarnar bjóða áhorfandanum inn í einskonar gátt, glugga með útsýni yfir örugga og draumkennda vídd þar sem bæði listkvárið og áhorfandinn geta mátað við sig langanir og þarfir. Hversdagslegir hlutir verða að miðpunkti þessara draumóra, skyndilega er ekkert sjálfssagðara en að kveikja á kerti sem kúrir ofan í rassaskoru og það að raka af einhverjum hárið verður að hámarki rómantíkurinnar.

Árið 2020 gaf Hammar út sína fyrstu teiknimyndabók Homo Line (Förlaget M) í Finlandi sem notið hefur mikilla vinsælda og frá og með árinu 2022 má finna verk háns í safneign Modern Museum of Art í Stokkhólmi.
Edith Hammar er með BA gráðu í myndlist frá Royal Academy of Fine arts í Stokkhólmi.

Fyrir Gallerí Undirgöng vann Edith nýtt verk sem teiknað er beint á veggi sýningarrýmisins.
Sýningin opnar sem hluti af dagskrá Hinsegin daga í Reykjavík 2022.

Gallerí Undirgöng er sýningarrými sem staðsett er í rúmgóðum upplýstum undirgöngum við Hverfisgötu 76 í Reykjavík.
Hlutverk gallerísins er að sýna tímabundin útilistaverk í borginni, auka sýnileika samtímalistar í borgarrýminu og skapa vettvang þar sem myndlistamönnum gefst tækifæri til að takast á við óhefðbundið rými og nýjar aðstæður til sýningarhalds í almannarými.
Sýningin Vellíðan stendur til októberloka 2022.

Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
Bildschirmfoto 2021-05-08 um 15.16.09.pn
bottom of page