Gallerí Undirgöng: Hleðsla - Draumur I - Eygló Harðardóttir
miðvikudagur, 30. mars 2022
Gallerí Undirgöng: Hleðsla - Draumur I - Eygló Harðardóttir
Hleðsla - Draumur I
Eygló Harðardóttir opnar sýningu í Gallerí Undirgöng Hverfisgötu 76
Laugardaginn 2. apríl kl: 16 opnar sýning Eyglóar Harðardóttur; Hleðsla - Draumur I í Gallerí Undirgöng við Hverfisgötu 76 í Reykjavík.
Sýningin samanstendur af röð málverka sem mynda eina innsetningu sem unnin er sérstaklega fyrir sýningarrýmið.
Litir verksins sem birtast í þremur sextettum voru valdir á grundvelli sambands þeirra hver við annan og útfrá staðsetningu verksins og umhverfi þess. Litirnir kallast á í uppstillingunni og brjóta upp einsleitni umhverfisins.
Verkin búa yfir krafti og ákefð og lýsa upp af innri bjarma þetta almenningsrými götunnar. Í innsetningunni í undirgöngunum, í stanslausum klið bæði bíla og gangandi vegfarenda, gefa verkin vegfarendum möguleika á að sjá rýmið í nýju ljósi og vekja á táknrænan hátt meiri athygli á því sem fyrir augu ber hinum megin við bílrúðuna.
Eygló Harðardóttir er fædd í Reykjavík. Hún hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2019 fyrir einkasýninguna „Annað rými” sem haldin var í Nýlistasafninu 2018.
Undanfarin ár hefur hún m.a. tekið þátt í sýningaverkefnum sem hafa átt sér stað utan hefðbundinna sýningarrýma, bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Verkefni þessi hafa oft fleti sem skarast og sýningu sem endapunkt. Verkin eru unnin inní ákveðin samhengi og sem dæmi má nefna Vísbendingar sem var hluti af Bibendum vinnustaða sýningaröð Listasafns ASÍ 2020 þar sem Eygló vann þrjú verk fyrir vinnusal hjólbarðaverkstæðis í Reykjavík. 2021 tók hún þátt í Staðir/Places þar sem hún vann m.a. innsetningu inní yfirgefið sumarhús.
Eygló hefur starfað og sýnt verk sín hér heima og erlendis og verk hennar eru í eigu opinberra safna.
Gallerí Undirgöng er listamannrekið sýningarrými sem staðsett er í rúmgóðum upplýstum undirgöngum við Hverfisgötu 76 í Reykjavík.
Hlutverk gallerísins er að sýna tímabundin útilistaverk í borginni, auka sýnileika samtímalistar í borgarrýminu og skapa vettvang þar sem myndlistamönnum gefst tækifæri til að takast á við óhefðbundið rými og nýjar aðstæður til sýningarhalds í almannarými.
Sýningin Hleðsla - Draumur I stendur til 17. júlí 2022.