Gallerí Grótta: Listvefnaður og blöndum tækni - Þorbjörg Þórðardóttir
miðvikudagur, 19. október 2022
Gallerí Grótta: Listvefnaður og blöndum tækni - Þorbjörg Þórðardóttir
Listvefnaður og blönduð tækni í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 20. október kl. 17:00
Þorbjörg Þórðardóttir textíllistakona er fædd í Reykjavík 1949. Hún stundaði nám við Myndlista-og handíðaskólann og framhaldsnám við Konstfackskólann í Stokkhólmi og hefur unnið að list sinni allt frá 1975 ásamt kennslu við M.H.Í., K.H.Í. og Fossvogsskóla. Þorbjörg hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér heima í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur þrisvar hlotið starfslaun listamanna og unnið til verðlauna fyrir list sína. Listaverk eftir Þorbjörgu eru í eigu opinberra stofnana og listasafna bæði hérlendis og erlendis þ. á m. Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur.
“Hugmyndir að verkum mínum sæki ég til íslenskrar náttúru og vinn úr þeim á óhlutbundinn hátt. Þetta eru minningarbrot af náttúrufyrirbærum þar sem samspil efnis og áferðar er mikilvægur þáttur. Eins og hugmyndirnar kemur allt efni sem ég nota úr náttúrunni sem ég lita og spinn frjálslega. Ég hef haldið tryggð við vefstólinn og gömlu seinlegu veftæknina sem er svo yndislega á skjön við hraða nútímans. Ég nýt þess að vinna með þetta gamla hefðbundna efni, mjúka ullina, óstýriláta hrosshárið, stama sísalinn og umbreyta í nútímatextíl.”
Sýning Þorbjargar Þórðardóttur í Gallerí Gróttu stendur yfir frá 20. okt – 12. nóv. 2022
Hún er opin alla virka daga kl. 10-18:30, föstudaga 10-17, laugardaga kl. 11-17 og sunnudaga 14-17.
ATH! Gengið er inn frá Eiðistorgi um helgar e. kl. 14:00.