Gallerí Grótta: Þetta er ekki náttúra - Samsýning

föstudagur, 18. mars 2022
Gallerí Grótta: Þetta er ekki náttúra - Samsýning
Þetta er ekki náttúra – Gallerí Grótta 24. mars – 30. apríl 2022
Náttúran birtist á fjölbreyttan hátt í verkum þriggja listamanna á þessari sýningu, Ásdísar Arnardóttur, Kristbjargar Olsen og Þorgerðar Jörundsdóttur, ÞETTA ER EKKI NÁTTÚRA í Gallerí Gróttu, frá 24. mars til 30. apríl 2022.
V ið opnun sýningarinnar verður flutt tónverk eftir Rory Murphy sem tileinkað er Erkitýpunum.
Texta Oddnýjar Eir Ævarsdóttur syngur Messíana Halla Kristinsdóttir sópran. Tónverkið verður endurtekið kl.13:00 alla laugardaga á meðan sýningin stendur yfir.
Sýningin stendur til 30. apríl 2022.
Opið virka daga 10-18:30, föstudaga 10-17 og laugardaga kl. 11-14.
Náttúran birtist á fjölbreyttan hátt í verkum þriggja listamanna á þessari sýningu Ásdísar Arnardóttur, Kristbjargar Olsen og Þorgerðar Jörundsdóttur. Eins og titillinn gefur til kynna eru verkin ekki náttúran sjálf heldur upplifun og tilfinning hverrar og einnar af henni. Sýningin færir okkur þannig ólík sjónarhorn ólíkra myndlistarmanna á tengsl manns og náttúru.
Ásdís reynir að fanga og endurupplifa tilfinninguna sem fylgir því að vera ein á fjöllum um hávetur í froststillum. Það er e.t.v. ekki hægt að mála þögnina en það má alltaf reyna að miðla tærri birtunni og vona að þráin eftir því að komast aftur í návígi við snjóbarin fjöll fylgi með.
Í teikningum Kristbjargar skipta líkindin við viðfangsefnið ekki máli. Þó er viðfangsefnið í forgrunni í teikniferlinu sjálfu. Þar er athyglinni beint að tilteknum afmörkuðum þætti í náttúru eða umhverfi. Á meðan línan ferðast um pappírinn er hún fasttengd ákveðnum stað í tíma og rúmi í huga listamannsins.
Þorgerður vinnur með mikil smáatriði undir stækkunargleri í tilraun til að sýna líffræðilegan fjölbreytileika náttúrunnar. Verkin vísa í skrásetningar náttúrufræðinga á plöntum og dýralífi en eru þó á mörkum hins óhlutbundna og fígúrativa. Verkin eru full af smáatriðum sem sjást aðeins við nánari skoðun.
Ásdís Arnardóttir nam myndlist við Myndlistarskólann á Akureyri og Myndlista-og handíðaskóla Íslands sem og við Accademia di Belle Arti í Bologna. Hún lauk einnig mastersgráðu í kennaradeild Listaháskóla Íslands. Verk Ásdísar er að finna í Artóteki Borgarbókasafns í Tryggvagötu.
Kristbjörg Olsen er útskrifuð úr málun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, lauk kennsluréttindanámi frá Háskóla Íslands, kom aðeins við í Konunglega listaháskólanum í Stokkhólmi og lauk meistaranámi frá MaHKU, Utrecht Graduate School of Visual Art and Design í Hollandi.
Þorgerður Jörundsdóttir lauk námi við skúlptúrdeild MHÍ 1999, BA prófi í heimspeki við Háskóla Íslands 1995 og stundaði frönskunám í Université de Caen í Frakklandi. Þorgerður hefur starfað við ritstörf og þýðingar meðfram myndlistinni.
Allar eru listakonurnar félagar í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og hafa sýnt verk sín hérlendis og erlendis.
Ásdís Arnardóttir
s. 663 0654
asdisarnar@gmail.com
Instagram: asdisa16
Kristbjörg Olsen
s. 899 0219
kristbjorgolsen@gmail.com
kristbjorg.net
Þorgerður Jörundsdóttir
s. 896 1353
thorgerdur.jorundsdottir@gmail.com
Instagram: thorgerdurjorundsdottir