Gallerí Úthverfa - Outvert Art Space: EFTIRSKIN - Elísabet Sóldís Þorsteinsdóttir
þriðjudagur, 22. mars 2022
Gallerí Úthverfa - Outvert Art Space: EFTIRSKIN - Elísabet Sóldís Þorsteinsdóttir
E Sóldís:
EFTIRSKIN
24.3 – 10.4 2022
Fimmtudaginn 24. mars kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Elísabetar Sóldísar Þorsteinsdóttur (fædd 1999) í Úthverfu á Ísafirði. Á sýningunni sem ber heitið ,,EFTIRSKIN‘‘ og er fyrsta einkasýning Sóldísar eru nýleg verk, tölvugrafík, teikningar og málverk. Á sama tíma kemur út fyrsta ljóðabók listakonunnar ,,SKÁLDIÐ BLÓMSTRAR“ en hún verður viðstödd opnun sýningarinnar og boðið verður uppá sýningarspjall af því tilefni. Sóldís mun einnig sitja sjálf yfir sýningunni fimmtudaga – sunnudaga kl. 4-6.
,,Ég heiti Sóldís og er sjálfskapaður listamaður með miklar skoðanir sem fá útrás og vængi í gegnum fjölbreytta listræna sköpun. Ég hef sótt innblástur og lærdóm frá námskeiðum hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur, Myndlistarskóla Kópavogs og Lýðskólanum á Flateyri og fjölda ritsmiðja um allan bæ.
Ég nýt þess að skapa því þá fæ ég hugarró yfir hugsanir mínar sem annars virka svo myrkar en í listsköpun minni hljóma þær nánast aðlaðandi. Það er alltaf gaman að gera það sem maður hefur náðargáfu fyrir mín náðargáfa er að endurorða og að túlka myndrænt en ég þarf annað fólk til setja lífið í samhengi. Eins og diskóljós í rými þá sé ég hlutina alltaf á skrautlegri hátt eftir að ég öðlast skilning, það er kjarninn sem gerir mig að listamanni.
Grafísk hönnun er eftirlætis sjónræna listformið mitt því ég upplifi það meira eins og ævintýraheim. Einskonar einka raunheim sem þarf ekki að blanda við raunveruleikann svo hann er ekki spilltur af staðalímyndum.
Texti er mér þó mikilvægari en sjónræn list því þegar ég loka augunum blindast ég og man eftir verkinu á svipaðan hátt og ef lýsa á verkinu fyrir einhverjum sem hefur misst sjónina. Ég sé lit, ég sé texta, ég upplifi tilfinninguna í myndinni en ég get bara ekki séð hana (stundum kallað aphantasia).
Ég vona að þið njótið að sjá heiminn með mínum augum.“
Um ljóðabókina: ,,Það glampar af öllu sem frá henni Sóldísi kemur. Það er ekki beinlínis þannig að ljóðin glansi, en frjór hugur hennar speglar í þeim hugmyndir, tilfinningar, fólk og málefni með húmor, gleði og trú, en líka vonleysi, sorg og eftirsjá – þau streyma og varpa glampanum út frá sér. Sóldís er einstök, stundum óhamin en alltaf frjáls þegar hún tjáir sig. Alltaf gefandi og glöð þrátt fyrir allt. Ljóðin eru hrein uppspretta, en þau eru líka hrá tjáning og leyfa sér stundum að fara um víðan völl, teygja og toga orðin og virða engar reglur. Svo hrökkva þau inn í einhvern takt og allt fellur í ljúfa löð. Þetta eru ljóð manneskju sem lætur ekki stjórnast af neinu öðru en því sem sprettur úr hennar eigin hugarfylgsnum. Og þar er að finna bæði skin og eftirskin og mismunandi skæra birtu.” - EG
Starfsemi Úthverfu nýtur styrkja fyrir einstök verkefni úr Myndlistarsjóði, Uppbyggingarsjóði Vestjfarða og frá Ísafjarðarbæ.
Gallerí Úthverfa / Outvert Art Space
Aðalstræti 22 - 400 Ísafjörður
Opið fimmtudaga – sunnudaga 4-6.
galleryoutvert@gmail.com
+354 868 1845
www.kolsalt.is