Fyrirlestur sýningastjórans Gavin Morrison

fimmtudagur, 8. maí 2025
Fyrirlestur sýningastjórans Gavin Morrison
Verið hjartanlega velkomin á fyrirlestur Gavin Morrison í Svavarssafni, fimmtudaginn 8. maí klukkan 17:00, þar sem hann mun fjalla um áhrif Íslands á tvo af helstu alþjóðlegu listamönnum heimssögunnar, William Morris (1836-1896) og Donald Judd (1928-1994), og um Íslandstengsl þessara frumkvöðla listarinnar, sem báðir heimsóttu landið, urðu hér fyrir sterkum áhrifum frá náttúru plönturíki og mannfólki, og settu báðir sterkt mark sitt á sjónlistasöguna.
Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku og eru öll hjartanlega velkomin.
Donald Judd uppfyllti draum sinn um að heimsækja Ísland á níunda áratugnum og þá staði sem nefndir eru í uppáhalds Íslendingasögunum hans. Áhugi hans á íslenskum bókmenntum hófst á unglingsárum og leiddi til ævilangs áhuga hans á íslenskri menningu. Um hundrað árum áður en Judd kom til landsins hafði listamaðurinn, rithöfundurinn og hönnuðurinn William Morris komið hingað til lands í svipuðum tilgangi, hafði þá heillast af Íslendingasögunum og frásögnum af óspjölluðu landi.
Í fyrirlestri Gavins Morrison mun hann fjalla um áhuga og upplifanir Donalds Judd og Williams Morris í og eftir heimsóknir þeirra til Íslands en fyrir þeim var Ísland staður þar sem sagnaritun, myndlist, arkitektúr og landslag runnu saman á merkingarbæran hátt og veitti þeim andagift.
Gavin Morrison er skoskur rithöfundur og sýningastjóri, sem hefur fjallað um og átt í samstarfi við listafólk á Íslandi um árabil. Hann er um þessar mundir að ljúka við bók—fyrir útgáfu Lars Müller í Zürich—um tengsl Donalds Judd við Ísland og vinnur jafnframt að sýningu því tengdu fyrir Listasafn Íslands. Bókin verður gefin út samhliða opnun sýningarinnar snemma árs 2026.